141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[17:28]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að reyna að fara yfir húsnæðismálin eins og ég sé þau í stóru sögulegu samhengi og líta þess vegna yfir ár og áratugi. Ég var í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins í árdaga míns stjórnmálaferils á níunda áratugnum og lærði þá margt í þessum efnum og hef fylgst með þeim síðan. En ef menn vilja fara ofan í skotgrafir og ræða þetta út frá því af hverju núverandi ríkisstjórn hafi ekki gert öll kraftaverkin í þessum efnum þá skal ég bara líka vera ærlegur og segja: Ég vildi gjarnan að við hefðum komist lengra áleiðis með það sem við höfum verið með í vinnslu og í kortunum að byggja betur upp og leggja grunninn að heilbrigðum leigumarkaði. Það hafa til dæmis verið viðræður við lífeyrissjóðina, þeir eiga peningana, um það hvort þeir væru tilbúnir til að leggja þá fram og koma inn í uppbyggingu leigufélaga eins og lífeyrissjóðir gera til dæmis í Danmörku. Það hefur gengið hægt, það er alveg rétt.

En má ég þá biðja um örlitla sanngirni á móti, ég skal ekki kveinka mér undan gagnrýni: En vill þá ekki hv. þingmaður líka vera sanngjarn gagnvart því sem við hefur verið að glíma þessi ár? Ætli það hafi ekki verið dálítill handleggur að taka við ástandinu og fjármálum heimilanna eins og þau voru skilin eftir 30. janúar 2009?