141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er allt spurning um áherslur. Tugir milljarða hafa verið settir — hér kom fram að það hefðu verið 50 milljarðar — í Íbúðalánasjóð til þeirra sem skulda eða taka lán en settir hafa verið 4–5 milljarðar á ári í húsaleigubætur til leigjenda. Ég tel að leigjendur séu sá hópur manna eða fjölskyldna í landinu sem er verulega illa settur. Mér finnst að opna þurfi augu manna fyrir því.

Auðvitað vil ég auka veg einkahúsnæðis. Ég vil að þetta fólk kaupi aftur húsnæði af því að ég tel að það sé öllum til góða að menn búi í eigin húsnæði. Það er nefnilega þannig að húsnæði verður ekkert ódýrara þó að einhver annar eigi það. Það er alveg jafndýrt að vera með búseturéttaríbúð eða félagslega íbúð eða eitthvað slíkt, nákvæmlega jafndýrt að byggja það og kannski enn dýrara að reka það vegna þess að íbúinn kemur ekkert að því að gera við húsnæðið af því að hann á það ekki sjálfur. Ég tel að séreignarstefnan sé yfir lengri tíma alltaf ódýrari.

En þegar menn eru að kvarta undan því að lítið hafi verið gert í félagslegu húsnæði þá finnst mér að menn þurfi að muna eftir því hverjir hafa verið í ríkisstjórn.