141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Ábyrgðasjóður launa.

195. mál
[17:34]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum. Ég vil geta þess þegar í upphafi að frumvarp þetta er nú lagt fram í annað sinn en það var lagt fram á síðasta þingi án þess að fjallað væri um það efnislega þá.

Tilefni þessa frumvarps eru athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við innleiðingu hér á landi á tilteknum ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um vernd til handa launafólki verði vinnuveitandi gjaldþrota.

Þar sem lögum um Ábyrgðasjóð launa var meðal annars ætlað að innleiða eldri tilskipanir um sama efni tel ég nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögunum í því skyni að koma til móts við umræddar athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA. Er þar með verið að tryggja fullnægjandi innleiðingu hér á landi á tilskipun Evrópusambandsins um vernd til handa launafólki verði vinnuveitandi gjaldþrota. Athugasemdir Eftirlitsstofnunarinnar lúta meðal annars að því hvernig fara skuli með kröfur launamanna gjaldþrota vinnuveitanda sem hefur haft viðvarandi starfsemi í fleiri en einu aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Samkvæmt gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa skal hann ábyrgjast greiðslur á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Enn fremur er í lögunum kveðið á um að í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur staðfestu í fleiri en einu ríki veiti lögin ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi, enda njóti kröfur þeirra ekki ábyrgðar í öðru ríki. Evrópudómstóllinn hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að til að kröfur launafólks gjaldþrota vinnuveitenda njóti ábyrgðar í fleiri en einu ríki beri að túlka umrædda tilskipun Evrópusambandsins þannig að nægilegt sé að vinnuveitandi hafi haft staðfestu í einu aðildarríki og hafi síðan jafnframt haft viðvarandi starfsemi í öðru aðildarríki þar sem starfsfólk starfar á vegum hans. Að mati dómstólsins er því óheimilt að setja skilyrði um staðfestu vinnuveitanda í fleiri en einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið svo að sú vernd sem tilskipuninni sé ætlað að veita komi til álita líkt og kveðið er á um í gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa. Jafnframt telur dómstóllinn að tilskipuninni sé ætlað að vernda starfsfólk sem hafi starfað á vegum hins gjaldþrota vinnuveitanda í öðrum ríkjum en því ríki þar sem hann hefur haft staðfestu, enda hafi hann haft þar viðvarandi starfsemi. Í frumvarpinu er því lagt til að lögum um Ábyrgðasjóð launa verði eingöngu gert að skilyrði að vinnuveitandi hafi haft staðfestu í einu aðildarríki að samningum um Evrópska efnahagssvæðið, í Sviss eða í Færeyjum. Til að sjóðurinn beri ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna hlutaðeigandi vinnuveitenda sem að öllu leyti eða að jafnaði hafa innt af hendi starfsskyldur sínar hér á landi er jafnframt gert að skilyrði að vinnuveitandi hafi haft viðvarandi starfsemi hér á landi að því gefnu að önnur skilyrði laganna séu uppfyllt.

Lagt er til að tekið verði fram í lögunum um hvaða ríki er að ræða en fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að ekki sé um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa enda sé vísað til tilskipunar Evrópusambandsins um þetta efni í athugasemdum við frumvarp það er varðar lög um Ábyrgðasjóð launa. Enn fremur telur Eftirlitsstofnunin það óheimilt samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að setja það skilyrði að sjóðurinn ábyrgist eingöngu þær kröfur sem njóta ekki ábyrgðar í öðrum ríkjum líkt og kveðið er á um í gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa. Ekki er þó miðað við að launamenn geti fengið kröfur sínar bættar í tveimur ríkjum. Er því í frumvarpinu gert ráð fyrir að við ákvörðun um ábyrgð sjóðsins í slíkum tilvikum sé kannað hvort áður hafi verið teknar ákvarðanir vegna sömu krafna launamanna í öðrum aðildarríkjum og er það í samræmi við efni tilskipunar Evrópusambandsins.

Hæstv. forseti. Eftirlitsstofnun EFTA hefur auk þess sem ég hef nú þegar rakið gert athugasemdir við að í lögum um Ábyrgðasjóð launa sé ekki sérstaklega kveðið á um miðlun upplýsinga til lögbærra stofnana, sem ábyrgjast greiðslur launakrafna starfsmanna gjaldþrota vinnuveitenda í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og tilskipunin gerir ráð fyrir. Í frumvarpinu er því enn fremur lagt til að Ábyrgðasjóði launa verði gert skylt að veita hlutaðeigandi lögbærum stofnunum allar nauðsynlegar upplýsingar sem sjóðurinn kann að hafa í tengslum við kröfur launamanna í bú vinnuveitenda. Þannig geti stjórnvöld sem fara með þessi mál í einstökum aðildarríkjum nálgast nauðsynlegar upplýsingar hvert hjá öðru hafi vinnuveitandi haldið úti starfsemi í fleiri en einu aðildarríki að samningnum um EES, í Sviss eða í Færeyjum. Tilgangur þessa er einkum sá að tryggja það að launamenn fái þær kröfur sínar bættar sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt og jafnframt að gæta þess að sama krafan sé ekki tryggð í mörgum ríkjum.

Hæstv. forseti. Líkt og ég vék að í upphafi er frumvarpi þessu ætlað að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um innleiðingu hér á landi á tilteknum ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um vernd til handa launafólki ef vinnuveitandinn verður gjaldþrota. Verði frumvarp þetta að lögum tel ég að það hafi tekist að koma til móts við þessar kröfur og þar með náðst að tryggja fullnægjandi innleiðingu umræddrar tilskipunar hérlendis. Ég vil geta þess sérstaklega að frumvarpið er lagt fram eftir samráð við aðila vinnumarkaðarins.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.