141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

sviðslistalög.

199. mál
[17:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til sviðslistalaga. Frumvarpi þessu er ætlað að koma í stað gildandi leiklistarlaga frá árinu 1998 og reglna um Íslenska dansflokkinn sem voru settar á grundvelli 1. mgr. 14. gr. þeirra.

Með frumvarpinu er lagt til að fella saman í ein lög ákvæði um stuðning ríkisins við sviðslistastarfsemi atvinnulistamanna, þ.e. starfsemi Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og leiklistarráðs. Þá er í frumvarpinu horft til útvíkkunar á starfssviði sviðslista í heild sinni.

Frumvarpið var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi en þá náðist ekki að mæla fyrir því. Það er nú lagt fram að nýju með breytingum þar sem meðal annars hefur verið tekið tillit til athugasemda sem bárust um það.

Á þeim rúma áratug sem liðinn er frá setningu leiklistarlaga hafa orðið ýmsar breytingar sem kalla á endurskoðun. Starfsrammi stofnana hefur breyst og ábyrgð stjórnenda aukist. Meira framboð á menntun, bæði hér á landi og erlendis, hefur leitt til þess að sífellt fjölgar þeim sem skapa sér atvinnu á þessum vettvangi. Nauðsyn var á því að víkka út hugtakið leiklist til að ná til allra sviðslista þar sem til að mynda listdansi hefur vaxið fiskur um hrygg. Þá hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið unnið að breytingum á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar í þá veru að skipa ráð eða stjórn fyrir viðkomandi listgrein sem er ráðherra til ráðgjafar um málefni hennar og stofna sjóð til að efla hana með veitingu styrkja ásamt því að skapa grundvöll fyrir rekstur skrifstofu eða miðstöðvar sem þjóni viðkomandi sjóði og standi að kynningu á listgreininni hér á landi og erlendis. Við höfum fjölmörg dæmi um ágæti kynningarmiðstöðva listgreinanna. Breyting á leiklistarlögum í sömu veru er talin nauðsynleg til að framangreindir sjóðir og ráð eða stjórnir eftir atvikum starfi öll við sömu lagaskilyrði enda auðveldar það stjórnsýslu, yfirsýn og samvinnu sjóðanna.

Virðulegi forseti. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Hugtakið sviðslistir er kynnt og skilgreint en það er notað yfir leiklist, listdans, óperuflutning, brúðuleik og aðrar skyldar listgreinar, svo sem fjölleikahús o.fl., sem ekki falla undir starfsemi annarra sjóða eða ráða á sviði lista. Þær breytingar eru lagðar til á hlutverki Þjóðleikhússins að megináhersla verði lögð á íslensk og erlend leikverk. Sérstaklega er getið um að það eigi að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Óperustarfsemi hefur á undanförnum árum verið nær alfarið á vegum Íslensku Óperunnar og listdans hjá Íslenska dansflokknum en hvort tveggja má finna í skilgreiningu á hlutverki Þjóðleikhússins í gildandi lögum.

Síðan eru lagðar til þær breytingar á embætti þjóðleikhússtjóra að endurnýja megi skipunartíma þjóðleikhússtjóra ef meiri hluti þjóðleikhúsráðs mælir með endurráðningu að loknu einu tímabili en einungis má endurnýja einu sinni. Þar með er verið að lögbinda þá stefnu sem ég hef verið að marka í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að það sé hámarksráðningartími á forstöðumönnum listastofnana enda eru þær fáar í samfélaginu og mikilvægt að þar skapist nauðsynlegt hreyfing, getum við sagt, þannig að ekki sé hægt að gefa einum aðila sama embætti til 20 ára eða jafnvel 25 ára. Hins vegar er að sjálfsögðu hægt að auglýsa. Þetta er breyting á lögum. Í gildandi lögum var á sínum tíma lagt til að embætti þjóðleikhússtjóra yrði eina embættið sem skylt væri að auglýsa eftir fimm ár, en við teljum af reynslu að þetta sé betri máti. Í gildandi lögum er sem sagt lagt til að það sé skylt að auglýsa en enginn hámarkstími. Við teljum að þannig náum við betur fram markmiðum um eðlileg mannaskipti. Þetta er í samræmi við þær athugasemdir sem við höfum fengið frá þeim sem starfa í þessum geira.

Lagt er til að mælt verði fyrir um starfsemi Íslenska dansflokksins í lögum. Það er nýmæli því að hann starfar nú samkvæmt reglum nr. 14 frá árinu 2002 enda er Íslenski dansflokkurinn okkar opinbera stofnun á sviði listdans.

Lagt er til að III. og IV. kafla gildandi laga verði slegið saman í einn kafla sem fjalli um aðra sviðslistastarfsemi en þá sem fellur undir Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sviðslistaráð sem taki við hlutverki leiklistarráðs úthluti úr sviðslistasjóði og ákvarðanir þess verði endanlegar. Gerð er tillaga um að sviðslistaráð geti fengið heimild ráðherra til að reka skrifstofu eða gert samning við til þess bæran aðila til að halda utan um fjármuni, rekstur sjóðsins og starfsemi ráðsins. Þetta er haft opið í samræmi við annan lagaramma innan menningarstarfsemi.

Frumvarpið fjallar um starfsemi atvinnufólks og því er ekki lengur að finna ákvæði um stuðning við starfsemi áhugaleikfélaga. Hv. þingmenn hafa þegar fengið bréf frá áhugaleikfélögum þar sem þessu ákvæði er mótmælt. Þetta varð niðurstaðan sem byggir á því ákvæði að eðlilegt sé að stuðningur við áhugaleikfélög og aðra áhugastarfsemi á sviði hinna ýmsu listgreina, því að þetta á ekki bara við um leikfélög, falli innan ramma menningarsamninga ríkisins við Samtök íslenskra sveitarfélaga eða að einfaldlega verði ákveðið að vera með sérstakt framlag á fjárlögum eins og verið hefur, og er ekkert sem útilokað það, en það sé ekki lögbundið með þeim hætti sem verið hefur. Ég geri ráð fyrir að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari ítarlega yfir þetta ákvæði.

Í IV. kafla frumvarpsins er mælt fyrir um stuðning við óperustarfsemi og heimild ráðherra til að gera tímabundinn samning um fjárstuðning við slíka reglubundna starfsemi. Lagt er til að heimild ráðherra samkvæmt gildandi lögum til að gera samning við atvinnuleikhús færist til sviðslistasjóðs. Það félli því í verkahring sviðslistasjóðsins að gera tillögu um það til ráðherra á hverjum tíma hvort gera ætti tímabundna samninga við rekstraraðila sviðslistahóps, atvinnuleikhúss og sviðslistahátíða.

Virðulegi forseti. Með framangreindu breytingum er stefnt að því að sams konar rammalöggjöf gildi um sviðslistasvið eins og önnur listasvið, þ.e. ákvæði séu annars vegar um þær ríkisstofnanir sem starfa á viðkomandi sviði og hins vegar um sjóð og ráð sem vinna að framgangi sviðslistanna utan veggja stofnana. Ég tel að þetta frumvarp skýri lagagrundvöllinn fyrir viðkomandi listastofnanir, verði það samþykkt, en ekki síst mun það styrkja starfsemi sviðslistahópa og skapa grundvöll til að stofna kynningarmiðstöð fyrir íslenskar sviðslistir til að standa að kynningu á þeim innan lands sem utan. Alþingi samþykkti á sínum tíma fjárveitingu til sviðslistamiðstöðvar, sem var mjög gott skref, og ég tel fulla ástæðu til að lögbinda það með þessum hætti.

Hingað til hafa umsóknir um styrki til atvinnuleikhópa borist ráðuneytinu þar sem þær hafa verið skráðar og umfjöllun leiklistarráðs undirbúin. Tillögur leiklistarráðs hafa síðan verið lagðar til ráðherra til samþykktar og gengið frá bréfum til umsækjenda en við samþykkt frumvarpsins færast þessi verkefni til sviðslistaráðs og þeirrar skrifstofu sem mun þjóna því, enda er gert ráð fyrir því að ákvarðanir sviðslistaráðs verði endanlegar á stjórnsýslusviði og sæti ekki kæru til ráðherra rétt eins og á við til að mynda um listamannalaun, starfslaun listamanna og rannsóknarstyrki. Þannig gefst stjórnsýslu ríkisins betra rými til að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.