141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

sviðslistalög.

199. mál
[17:48]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til sviðslistalaga. Hér er mikilvægur áfangi á ferð sem ég fagna sérstaklega að komin sé í fyrsta sinn rammalöggjöf um sviðslistir sem leysa mun af hólmi þau leiklistarlög sem verið hafa í gildi.

Hér er sjónarhornið víðar en í gildandi lögum. Gildissvið laganna tekur til leiklistar, listdans, óperuflutnings, brúðuleikhúss og skyldrar liststarfsemi sem heyrir ekki undir lög um aðrar listgreinar.

Ég vil lýsa yfir sérstökum stuðningi við þá stefnu sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur fylgt og markað um að mikilvægt sé að stuðla að reglulegri endurnýjun forstöðumanna helstu menningarstofnana. Ég held að það sé mjög til bóta í þessum geira.

Ég vil sérstaklega spyrja um tvennt. Í fyrsta lagi vil ég spyrja um skipan þjóðleikhúsráðs og stjórnar Íslenska dansflokksins. Gert var ráð fyrir því í fyrri útgáfum frumvarpsins að fulltrúar faggreinanna væru í meiri hluta í þjóðleikhúsráði og stjórnar dansflokksins en því hefur verið breytt í þeirri gerð frumvarpsins sem lögð er fyrir þingið. Mig langar að spyrja um ástæður þeirra breytingar.

Í öðru lagi vil ég spyrja um kynningarhlutverk sviðslistanna. Áform hafa verið uppi um að stofna Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista með fjárstuðningi frá ríkinu til samræmis við þær kynningarmiðstöðvar sem við þekkjum í ýmsum öðrum greinum eins og bókmenntum, myndlist, tónlist o.s.frv. Ekki er beinlínis kveðið á um slíka miðstöð í frumvarpinu þó að opnað sé fyrir það að sviðslistaráð geti rekið skrifstofur. Mig langar að spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra til þess að slík kynningarmiðstöð verði sett á laggirnar með stuðningi ríkisins.