141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

sviðslistalög.

199. mál
[17:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Það kann að vera að skipan þjóðleikhúsráðs hafi verið með öðrum hætti og að jafnvel hafi verið gert ráð fyrir fækkun þar í einhverjum gerðum frumvarpsins. Það var ákvörðun mín að leggja til að þetta yrði með óbreyttum hætti, bæði þjóðleikhúsráð og stjórn Íslenska dansflokksins. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel að fyrirkomulagið hafi gefist vel bæði hvað varðar stjórn dansflokksins og þjóðleikhúsráð. Þegar ég lagðist yfir þessi mál taldi ég rétt að halda því fyrirkomulagi sem gefist hefur vel og hrófla ekki við því eingöngu breytinganna vegna.

Hvað varðar sviðslistamiðstöðina er hlutverk ráðsins skilgreint hér. Það er að sumu leyti svipað og þegar við horfum á bókmenntasjóðsstjórnina, svo dæmi sé tekið, í öðru frumvarpi sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur til umfjöllunar. Hlutverk ráðsins er að kynna íslenskar sviðslistir hér á landi og erlendis. Sviðslistaráð er skipað fimm fulltrúum, Leiklistarsamband Íslands skipar fjóra fulltrúa í ráðið og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar. Við teljum að þarna komi geirinn svo sannarlega saman, hann kemur svo sannarlega saman í Leiklistarsambandinu. Hugsunin er sú að hafa opna heimild til þess að færa vald í geirann svo hann hafi mest um það að segja hvernig miðstöð hann vill reka á sviði sviðslista. Afstaða mín er sú að það eigi að vera svo en rétt eins og gefist hefur vel til að mynda í bókmenntunum og víðar er mikilvægt að sambandið við geirann sé sem mest.

Ég get nefnt aðra kynningarmiðstöð sem dæmi sem ekki er bundin í lög, sem er Útón, sem er einmitt rekin af geiranum. Hugsunin með þessu var sem sagt að löggjafinn mundi ekki binda það nákvæmlega í lögum hvernig það væri gert, það væri lagt í hendur þeirra sem starfa á vettvangi.