141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir umræðuna og mun leitast við að svara þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fram.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir ræddi aðeins um undirbúninginn. Þannig var að við byrjuðum á því að fara í greiningarvinnu og fengum Hauk Hannesson, doktor í menningarfræðum, sem hefur starfað talsvert í Svíþjóð, til að greina menningarstefnu ríkisins og vinna ákveðna undirbúningsvinnu, þ.e. greina gildandi stefnu og koma með ákveðnar hugmyndir um hvernig mætti vinna stefnuna áfram. Menningarlandið , ráðstefnan sem ég nefndi hér áðan, var síðan ákveðinn vendipunktur því að þar var þessi greiningarvinna kynnt og lögð til grundvallar og í framhaldinu sköpuðust þar miklar umræður og má segja að við höfum fengið efniviðinn í stefnuna. Það sem við nýttum líka var Menningarvogin, sem ég nefndi áðan, sem er rannsókn á menningarþátttöku Íslendinga. Þá hélt Bandalag íslenskra listamanna sérstakt málþing um mótun menningarstefnu og við fengum niðurstöður þess málþings. Þar komu saman fulltrúar ólíkra hagsmunasamtaka listamanna og stofnana þannig að sú umsögn nýttist okkur vel. Síðan var þetta lagt í hendur rýnihópa sem skoðuðu einstaka þætti og því næst sett í opið umsagnarferli á netinu. Við teljum því að umtalsvert samráð hafi verið haft.

Hv. þingmaður spurði um sveitarfélögin og ég ítreka að menningarráðin og sveitarfélögin tóku þátt í ráðstefnunni Menningarlandinu á sínum tíma. Það er því búið að leggja talsverða vinnu í þetta samráð og við höfum fengið margar góðar athugasemdir. Það tengist kannski því sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefnir, að þegar verið er að leiða saman mörg sjónarmið kann fagurfræðilegt orðalag stundum undan að láta. Ég tek undir með hv. þingmanni að sjálfsagt er að fara yfir það.

Hvernig á að innleiða stefnuna? spyr svo hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. Það er auðvitað stóra málið ef Alþingi Íslendinga nær saman um að setja slík leiðarljós og að sjálfsögðu reikna ég með því að þau taki einhverjum breytingum í meðförum þingsins. Ég sé til að mynda fyrir mér að hægt sé að innleiða slík leiðarljós í samningum við stofnanir. Ef við ætlumst til þess að menningarstofnanir sinni sérstaklega börnum og ungmennum eða landsbyggðinni, eins og hv. þingmaður nefndi, þá er hugsanlegt að við getum innleitt það í gegnum stofnanasamninga. Það er hægt að setja áherslur í menningarsamninga í samráði við sveitarfélög, t.d. hvort ástæða sé til að leggja sérstakar áherslur við úthlutanir styrkja. Ef við ætlum að gera skurk í tilteknu máli, segjum stafrænni varðveislu menningararfsins, þarf að huga að því að sú áhersla sé sett í samræmi við þá fjármuni sem eru til staðar. Þarna er því verið að hugsa um það. Ég þekki það auðvitað sjálf og hv. þingmenn þekkja það vel að hugmyndirnar eru margar, margir einstaklingar úti í samfélaginu eru með góðar hugmyndir. Oft er hlutverk okkar fyrst og fremst að bregðast við þeim og hlúa að þeim og það er auðvitað jákvætt, en mér finnst ástæða til þess að löggjafinn segi líka: En við viljum líka leggja ákveðnar áherslur. Við viljum tryggja þetta samstarf við landsbyggðina, við viljum tryggja þátttöku barna og ungmenna eða annarra hópa. — Það er hugsunin með þessu.

Hér var spurt út í nokkra einstaka þætti hvað varðar leiðarljósin og talað um starfsemi atvinnumanna í d-lið um leiðarljós stjórnvalda í málefnum lista og menningararfs. Þetta er fyrst og fremst lýsing á ástandi. Stuðningur stjórnvalda beinist núna fyrst og fremst að þeim sem við köllum atvinnumenn. Svo er spurningin: Hvernig verður maður atvinnumaður? Er maður orðinn atvinnurithöfundur þegar maður er búinn að skrifa eina bók? Það er alltaf skilgreiningaratriði en þá höfum við listamannalaunin sem styrkja bara til verkefna og það má segja að þetta sé fólk sem er að einbeita sér að listinni.

Hvað varðar árangursmat þá fer fram árangursmat núna gagnvart stofnunum. Til að mynda erum við að fara að árangursmeta títtnefnda menningarsamninga. Það er mikilvægt að við metum árangurinn ef við setjum einhver slík markmið, eins og ég nefndi hér áðan, að við metum hvernig til hefur tekist eftir einhvern tíma.

Stjórnvöld greiða fyrir samstarfi ólíkra aðila í menningarlífinu. Það er nokkuð sem ég tel að sé mjög mikilvægt að stjórnvöld geri. Ég byggi þá skoðun mína á því að við erum lítið land með mjög margar stofnanir og erum með mjög mörg söfn og setur, svo að dæmi séu tekin, og ég tel að stjórnvöld eigi að stuðla að samstarfi ólíkra aðila. Þar sem við erum að ræða um landsbyggðina fór ég til Ísafjarðar um daginn og heimsótti byggðasafnið þar mér til mikillar ánægju og velti fyrir mér: Af hverju er ekki aukið samstarf safna á Vestfjörðum? Við sem mundum heimsækja Vestfirði fengjum til að mynda á einum stað allar upplýsingar um söfn og setur og sýningarvísa og gætum jafnvel keypt einn passa fyrir allt slíkt. Væri ekki aukin samlegð í því ef menningarstofnanir og þeir sem starfa að þessum málum skoðuðu hvort slíkt samstarf gæti skapað skemmtilegri heim þar sem fólk kynntist jafnvel betur hvert öðru og skiptist á hugmyndum, og líka skemmtilegri heim fyrir þá sem sækja heim þessar menningarstofnanir? Ég lít svo á að við getum greitt fyrir samstarfi þarna með því að taka málin upp, ræða þau við stofnanir og þá sem sinna þessum málum. Ég hef orðið vör við það í starfi mínu, því að ég ræði þetta talsvert mikið og við marga, að þetta er eitt af því sem margir segja: Já, þetta er mjög gott mál og það væri óskandi að einhver tæki þetta upp og héldi áfram með það.

Spurt var um listfræðsluna, hún hefur verið efld og verður væntanlega efld með innleiðingu nýrrar námskrár. Þar sem lögð er áhersla á sköpun sem einn af grunnþáttum er horft til þess hvernig við getum gert listfræðslu og listkennslu fjölbreyttari. Eins og ég sagði áðan er ekki verið að horfa í sérstakar fjárveitingar en ef þetta er eitthvað sem löggjafinn er sammála um að verði leiðarljós þá verður væntanlega horft til þess í framhaldinu í stefnumótunarvinnu og við fjárveitingar.

Ég nefni sérstaklega rannsóknir á sviði menningar og lista. Þar tel ég mikinn óplægðan akur. Við Íslendingar höfum náttúrlega sýnt gríðarlega frjósemi á þessu sviði en höfum kannski ekki sinnt rannsóknum á sviði menningar og listar. Það er eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur hvernig við getum staðið betur að.

Hv. þingmaður nefndi samstarf menningarstofnana við landsbyggðina. Mér finnst eðlilegt að nefndin skoði það. Talað er um að menningarstofnanir eigi að gefa landsmönnum, væntanlega öllum, tækifæri á að njóta listsköpunar og hugsanlega er ástæða til að hnykkja á því.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi orðalag á borð við „lifandi menningarstofnanir“. Ég tel eðlilegt að nefndin fari yfir það. Eins og ég sagði áðan, meðan hv. þingmaður brá sér fram, ber þessi stefnumótun þess merki að á mörg sjónarmið hefur verið hlustað. Þarna er verið að flétta saman ólíka þræði og að sjálfsögðu er eðlilegt að þingnefndin fari aðeins yfir textann út frá því sjónarmiði, hann má vafalaust gera skarpari.

Ég vil að lokum segja að mér finnst umræðan sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á um markmiðin góð. Af hverju erum við með listir og menningu? Af hverju erum við að þessu? Hann nefndi hið siðaða samfélag sem mér finnst einmitt fyrst og fremst snúast um það að listin hafi mannbætandi áhrif á hvern og einn óháð öllum hagrænum áhrifum og öðrum jákvæðum samfélagslegum áhrifum, en hún hefur auðvitað líka samfélagsleg áhrif. Í kaflanum sem ber heitið Menningarþátttaka stendur að menningarleg fjölbreytni styrki samfélagið og aðgengi að menningu sé mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Þarna er verið að gera atlögu að því sem mér fannst hv. þingmaður nefna, að það er vissulega mikilvægt að hið opinbera styrki menningu því að menningin skapar störf og getur verið grundvöllur fyrir afleidd störf — ég nefni sem dæmi ferðamennsku sem byggir í sívaxandi mæli á menningu — en fyrst og fremst er hún mikilvæg sjálfrar sín vegna. Það er ekki ólíklegt í ljósi þess að oft þegar við ræðum um fjármögnun lista og menningar erum við svo önnum kafin við að réttlæta þá fjármögnun með ýmsum öðrum rökum, eins og þetta sé svo gott fyrir atvinnulífið og samfélagið allt, að við gleymum því hver grunnurinn er, þ.e. þessi mannbætandi áhrif. Fólk sem elst upp við margháttaða menningu lærir um leið mjög margt annað og verður líklega betri manneskjur. Þeir sem ég hitti erlendis og taka þátt í starfi að menningarmálum verða alltaf jafnhlessa þegar ég útskýri fyrir þeim íslenska orðið menning, þ.e. að verða mennskur, og finnst það algjörlega frábært orð og telja að það hljóti að vera skýringin á því af hverju við eigum svona blómlegt menningarlíf, að þarna höfum við náð essensinum í menningunni.

Ég fagna því að þessi tillaga fari nú til umræðu og vona að hún verði, eins og ég sagði áðan, góð og gefandi.