141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er sammála mér um það að skoða megi þennan texta og hugtökin. Ég tel einmitt rétt það sem kemur fram, auðvitað þekkir hæstv. ráðherra það vel, að málið beri þess merki að leitað hafi verið víða fanga við þessa samningu. Það er ágætt.

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér varð varðandi þann þátt listanna sem snýr að hinu mannbætandi langar mig að bæta við — og hef áhuga á að heyra síðan skoðun hæstv. ráðherra því að ég geri ráð fyrir að hún geti orðið ósammála mér um það sem ég vil segja núna — að við sem aðhyllumst þá skoðun að það gangi best í samfélögum eftir því sem við reynum að reglugera minna, þ.e. að við skiljum eftir sem mest svigrúm fyrir einstaklinginn, og þá sný ég mér að hinum efnahagslega þætti málsins, til að við getum haft hinn frjálsa markað, til að við getum látið það ganga upp að við séum með tiltölulega einfaldar, skýrar og ekki of margar reglur um mannlega hegðun þá sé menning og listir eitt besta tæki sem við höfum til þess að gera samfélagið siðað, til að milda samfélagið og skilja þannig eftir meira svigrúm fyrir t.d. efnahagsstarfsemina á opnari grunni en í samfélögum þar sem þetta skortir. Ég held að ein af ástæðum þess að kapítalisminn hefur gengið ágætlega upp á Vesturlöndum sé sú hvernig samfélögin eru uppbyggð og menningarlegrar sögu og listasögu þeirra sem gerir þeim auðveldara vera svona opin til að það fyrirkomulag sem við höfum varðandi efnahagsstarfsemina gangi betur upp. (Forseti hringir.) Auðvitað tengist það líka réttarríkjum, dómstólum og (Forseti hringir.) öllum þeim þáttum. Ég held (Forseti hringir.) einmitt að listir og menning skipti verulegu máli til að samfélög séu siðuð.