141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja, til þess að það hafi verið sagt hér af minni hálfu, hvað varðar regluverk sem við setjum um mannlega hegðun og sérstaklega um reglur á markaði að það skiptir máli að þær séu skýrar og einfaldar, ekki það að við eigum ekki að hafa neinar reglur, langt í frá, heldur að þær séu skýrar og einfaldar. Ég held að menning og list skipti máli.

Ég vil að lokum nýta þetta tækifæri til að þakka enn og aftur hæstv. ráðherra fyrir þessa tilraun til að setja fram mótaða menningarstefnu. Ég hefði gjarnan viljað hafa hér fleiri þingmenn til að fara í þá umræðu. Mér finnst hálfdapurlegt, virðulegi forseti, hversu fáir þingmenn hafa séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu. Þetta er mikilvægt mál. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig við styrkjum menningarstarfsemi í landinu, hvernig við höldum utan um menningararfinn og hvernig við styrkjum hinar skapandi listgreinar. Það skiptir miklu meira máli en svo að það séu ekki nema örfáir þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu. Ég sakna þess, virðulegi forseti, að fleiri hafi ekki verið hér til að ræða þetta mikilvæga mál.