141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram þeirri umræðu sem hv. þingmaður hóf í andsvari sínu og segja það sem ég hugsaði á meðan hann fór með sitt seinna andsvar. Það er það að samfélag sem er ríkt af menningu hefur ekki sömu þörf fyrir að lögbinda ýmsa hluti sem það telur sjálfsagt og að því leyti kann að vera að við séum sammála. Ég nefni sem dæmi og er eitt af því sem ég hef orðið vör við að margir ætlast til, að ýmsir hlutir sem ég tel að séu bara eðlilegar siðareglur sem ekki þarf að skrá og ekki þarf að lögbinda og við eigum auðvitað að fylgja — ég hef orðið vör við þá tilhneigingu að margir vilja lögbinda slíkar reglur.

Þá hlýtur maður að velta fyrir sér, af hverju finnur fólk þörf til að lögbinda slíkar reglur? Er það kannski af því að eitthvað skortir á menntun okkar eða menningu á því sviði? Það væri kannski betri langtímaleið til að bæta úr hlutunum en lögbinding.

En ég held að þetta sé eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur: Hversu langt á að ganga og lögbinda hluti sem við í raun og veru viljum kalla samskiptareglur og eðlilega siðlega hegðun? Auðvitað viljum við helst ala börn og ungmenni okkar þannig upp að þau tileinki sér slíka hegðun, en af einhverjum ástæðum er þessi þörf uppi og kannski er ástæða til að spyrja: Af hverju koma slíkar kröfur fram?