141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

21. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þetta er í þriðja sinn sem ég mæli fyrir þessu frumvarpi en það var unnið með aðstoð hæstv. menntamálaráðherra á þeim tíma sem ég sat í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Aðrir flutningsmenn frumvarpsins eru hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þór Saari og Þráinn Bertelsson.

Frumvarpið felur í sér réttarbót fyrir fólk sem er með námslán við töku lífeyris en það gerist hjá flestum við 67 ára aldur. Í frumvarpinu er veitt heimild til að fella niður eftirstöðvar námsskulda við 67 ára aldur hjá þeim sem hafa staðið í skilum við LÍN. Einnig er veitt heimild til að fella niður ábyrgðir ábyrgðarmanna við 67 ára aldur þeirra og að lokum veitir frumvarpið heimild til að fella niður eftirstöðvar námslána vegna langvarandi veikinda, fötlunar eða örorku skuldara.

Í dag er því þannig varið að lánasjóðurinn vinnur út frá þeirri reglu — ekki lögum heldur reglu — um að skuldabréf eða námslán séu afskrifuð við andlát lánþega. Þetta frumvarp bætir því verulega stöðu lánþega sem hafa tekið námslán og þeir mundu þá samkvæmt lögum eiga rétt á að skuldin félli niður við 67 ára aldur.

Samkvæmt upplýsingum frá LÍN er meðaluppgreiðslutími námslána hér á landi um 20 ár en á hinum Norðurlöndunum er þessi tími um 25 ár. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt sé að afskrifa lán þó svo að skuldari hafi lent í vanskilum þremur árum fyrir 67 ára aldur. Þá fer afskriftin þannig fram að afskrifuð er sú upphæð sem hefði staðið eftir ef engin vanskil hefðu orðið. Hér er því verið að koma til móts við fólk sem getur mögulega lent í erfiðleikum ef það neyðist til að minnka við sig vinnu stuttu fyrir töku lífeyris, til dæmis af heilsufarsástæðum eða öðrum ástæðum.

Samkvæmt þessu frumvarpi verða aðeins afskrifuð lán sem tekin eru fyrir 54 ára aldur. Það er auðvitað til þess gert að koma í veg fyrir að fólk hefji námslánshæft nám skömmu fyrir 67 ára aldur og fái lánið síðan fellt niður nokkrum árum seinna eða jafnvel áður en það hefur byrjað að greiða niður námslánið.

Það var mat okkar flutningsmanna og ekki síst mat hv. þingmanns Þráins Bertelssonar að aflétta þyrfti af herðum ábyrgðarmanna þeirri áhættu sem felst í ábyrgð fyrir námsmenn þegar ábyrgðarmenn öðlast rétt til töku ellilífeyris. Ástæðan er sú að LÍN hefur krafist þess af námsmönnum að þeir fái ábyrgðarmenn til að undirrita lánin áður en til greiðslu námsláns kemur og oftast hafa þessir ábyrgðarmenn verið foreldrar viðkomandi námsmanns. Þeir hafa síðan lent í erfiðleikum þegar viðkomandi námsmaður, barn þeirra, hefur ekki lengur getað aflað tekna.

Ég þekki margar sögur af foreldrum námsmanna sem hafa gengið í ábyrgð fyrir námslánunum sem ekki geta hugsað sér að lenda á vanskilaskrá, en á þá eru fallin námslán barna þeirra og þeir hafa jafnvel skorið niður við sig lífsnauðsynjar til að geta staðið skil á námslánum barnanna.

Ábyrgðarmenn eru ekki bara foreldrar námsmanna. Þeir geta líka verið systkini, ekki síst systkini námsmanna utan af landi. Ég hef að minnsta kosti þá reynslu af Lánasjóði íslenskra námsmanna að ekki náðist alltaf að senda pappírana út á land og fá undirskrift foreldra eða ábyrgð foreldra fyrir námsláninu til að geta fengið greitt út námslán á réttum tíma. Í mínu tilviki til dæmis var það systir mín sem skrifaði undir til þess að hraða afgreiðslu LÍN á námsláni. Í mínu tilfelli og margra annarra sem þurftu á systkinum sínum að halda sem ábyrgðarmönnum gætu námslánin, þegar við hefjum töku lífeyris, lent á systkinum okkar ef við verðum með of lágan lífeyri til þess að geta bæði framfleytt okkur og greitt af námsláninu.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem felast í þessu frumvarpi og er mikilvæg réttarbót, að ábyrgð ábyrgðarmanna fellur niður við 67 ára aldur. Markmiðið með þeirri heimild að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanna er náttúrlega að tryggja að þeir njóti sama réttar og aðalskuldari.

Í frumvarpinu er gert að tillögu að heimilt verði að fella niður námslánaskuld að öllu leyti eða hluta ef skuldari á við langvarandi veikindi, fötlun eða örorku að stríða, en margir öryrkjar hafa einmitt lent í vandræðum með að greiða af námslánum af mjög lágum örorkubótum.

Frumvarpið er að mestu leyti byggt á löggjöf á Norðurlöndunum. Þetta eru allt réttindi sem fólk með námslán á Norðurlöndunum hefur nú þegar, jafnvel þó að hluti af námslánum í þeim löndum sé í formi styrkja en ekki hér á landi. Til dæmis í Svíþjóð er það þannig að 1/3 af námsaðstoð er í formi styrkja en ekki lána eins og hér á landi að öllu leyti. Regluna um að lán séu ekki afskrifuð hafi þau verið tekin eftir 54 ára aldur er meðal annars að finna í lögum í Svíþjóð og síðan er það þannig bæði í Svíþjóð og Noregi að þeir sem hafa átt við langvarandi veikindi að stríða, fötlun eða örorku geta farið fram á að námslán falli niður.

Gera má ráð fyrir að réttarbótin sem felst í þessu frumvarpi muni kosta ríkissjóð á fyrsta árinu um 343 millj. kr., því að núna eru 121 einstaklingur kominn á 67 ára aldur sem enn skuldar þessa upphæð hjá LÍN. Þetta finnst mörgum ótrúlega há upphæð en hún skýrist jú fyrst og fremst af lágum launum margra, ekki síst í hefðbundnum kvennastörfum.

Það skal tekið fram að meginreglan sem felst í frumvarpinu nær einungis til þeirra sem standa enn í skuld við sjóðinn þegar þeir hefja töku lífeyris við 67 ára aldur. Endurgreiðsla námslána miðast við heildartekjur viðkomandi einstaklinga og því má gera ráð fyrir að tekjuhærri einstaklingar hafi náð að borga stærstan hluta eða allt námslán sitt við töku lífeyris eða við 67 ára aldur.

Sú breyting sem frumvarpið mælir fyrir um nær því fyrst og fremst til tekjulægri einstaklinga sem og þeirra sem hafa verið mjög lengi í námi. Það er mat okkar flutningsmanna að mjög brýnt sé að tryggja að endurgreiðslur námslána falli niður við 67 ára aldur til að koma í veg fyrir fátækt einstaklinga þegar þeir hefja töku lífeyris, fátækt sem mætti fyrst og fremst rekja til þess að viðkomandi einstaklingur var lengi í námi og á lágum launum eftir að námi lauk. Þarna er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem hafa verið í láglaunakvennastörfum og haft í raun minni ávinning af námi sínu en sem nemur ávinningi samfélagsins af náminu. Þetta á ekki síst við um fóstrur, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og aðrar sambærilegar stéttir. Í hagfræðinni er slíkt kallað markaðsbrestur þegar um er að ræða meiri ávinning fyrir samfélagið en fyrir einstaklinginn sjálfan. Þá ber ríkinu að grípa inn í með til dæmis niðurfellingu á námsláni eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Markaðsbresturinn felst sem sagt í því að ávinningurinn er miklu meiri af menntun einstaklingsins fyrir samfélagið en fyrir einstaklinginn sjálfan.

Frú forseti. Margir af þeim sem eru nú að nálgast lífeyrisaldur sjá fram á erfið ár eftir töku lífeyris, meðal annars vegna þess að verðtryggingin hefur á undanförnum árum étið upp ævisparnaðinn sem þeir voru búnir að setja til dæmis í fasteign sína. Einnig töpuðu mjög margir sparnaði sínum í bankahruninu þegar hlutabréfaverð hrundi eða þegar sú upphæð sem fólk hafði lagt inn í peningamarkaðssjóði rýrnaði töluvert vegna þess að eignir sjóðanna töpuðust eða voru verri en upplýst hafði verið um. Auk þess er því þannig farið að námslán hækka hraðar en laun vegna þess að námslán eru verðtryggð en ekki laun. Margir, sérstaklega þeir sem komu út á vinnumarkaðinn eða fóru í nám eftir 1979, sjá því fram á að skulda jafnvel meira í námslán en sem nemur skuld þeirra vegna fasteignakaupa.

Það er því mjög brýnt að innleiða þá réttarbót sem felst í þessu frumvarpi og ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að hraða meðferð þess og hleypa málinu aftur inn í þingið þannig að þingið geti samþykkt það. Ég trúi því að nú sé ákveðinn vilji til að taka á vandamálum þeirra sem eiga í erfiðleikum með að greiða af námslánum vegna þess að þeir hafa orðið fyrir einhverjum áföllum í lífinu eða eiga einfaldlega ekki rétt á mjög háum lífeyri þegar þeir eru orðnir 67 ára. Við höfum nefnilega fjölmörg dæmi um slíka einstaklinga í dag sem hrópa á breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég trúi ekki öðru en að meiri hlutinn á þingi sjái aumur á því fólki og ákveði að taka á þessu vandamáli sem samkvæmt hagfræðinni að minnsta kosti er einmitt hlutverk ríkisins að gera. Það á auðvitað ekki að vera þannig að fólk sitji uppi með námsskuldir eftir að hafa lokið starfsævi sinni.