141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

21. mál
[19:10]
Horfa

Jón Kr. Arnarson (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra af þessu nýja frumvarpi og vona að það hljóti sem bestar viðtökur hér á þingi. Þetta er náttúrlega enn ein viðleitni hv. þm. Lilju Mósesdóttur til að styrkja velferðarkerfið á Íslandi í kjölfar hrunsins. Það er mjög ánægjulegt að þarna er tekið bæði þeim þætti sem varðar lífeyrisþega sem skulda námslán en einnig þeirra sem hafa gengist í ábyrgð fyrir ættingja sína með námslán.

Lilja minntist réttilega á það að verðtryggingin hefur étið upp sparnað fólks eða aukið skuldir þannig að það er erfiðara að standa í skilum fyrir alla þá sem tekið hafa verðtryggð lán og þar á meðal náttúrlega líka námslán. Eins töpuðu margir sparnaði sínum í bankahruninu. Það er rétt að minnast líka á það að auk þessa gerðist það eftir bankahrunið og í upphafi valdatíma núverandi ríkisstjórnar að mjög stór hópur fólks var í raun nauðbeygður til að taka út allan sinn viðbótarlífeyrissparnað sem hefði átt að verða sá sparnaður sem gerði fólki kleift að takast á við óvænt áföll seinna á lífsleiðinni.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að hún hefði að einhverju leyti unnið frumvarpið í samráði við hæstv. menntamálaráðherra en fyrr í dag mátti skilja það á hæstv. menntamálaráðherra að hún væri sjálf að undirbúa frumvarp sem tæki að einhverju leyti á sömu málum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það geti verið einhver sameiginlegur flötur þarna, að hægt sé (Forseti hringir.) að sameina þessi tvö frumvörp.