141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

21. mál
[19:12]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Kristófer Arnarsyni fyrir góða fyrirspurn og þá ábendingu að margir þeirra sem ætluðu einmitt að tryggja að þeir ættu fyrir greiðslum af námslánum við töku lífeyris með því að safna sérstaklega í séreignarlífeyrissjóði töpuðu hluta af þeim sparnaði, meðal annars vegna þess að ávöxtunin var svo léleg, bæði fyrir hrun og í hruninu. Það er önnur ástæða til að nota og þrýsta á hæstv. menntamálaráðherra að gera eitthvað í málinu og tryggja þá réttarbót sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Hv. þingmaður spurði líka um fyrirætlan hæstv. menntamálaráðherra um að leggja fyrir þingið sambærilegt frumvarp. Ég var búin að heyra af þeirri fyrirætlan en þar sem ég veit að það er þröngt í búi hjá ríkinu óttaðist ég að frumvarp hæstv. menntamálaráðherra yrði ekki jafnvíðtækt og þetta frumvarp. Mér skildist af umræðunum í dag í þinginu að hæstv. menntamálaráðherra ætlaði að leggja fram frumvarp sem hefði fyrst og fremst í för með sér með réttarbót fyrir þá sem hefðu orðið fyrir örorku og þar af leiðandi haft lágar tekjur alla starfsævina og færu síðan á lífeyri við 67 ára aldur sem væri í mörgum tilfellum lægri en örorkubætur — ætlunin væri að fella niður námslán þessa hóps.