141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Marðar Árnasonar að velferðarnefnd þurfi að halda áfram að fjalla um málefni Íbúðalánasjóðs. Nefndin hefur verið að funda með Íbúðalánasjóði en það er hins vegar sláandi að sjá fyrirsögn núna á vefmiðlum um að stjórnvöld hafi tvær vikur til að bjarga sjóðnum, tvær vikur, annars verði hann ófær um að standa við skuldbindingar sínar.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér erum við ekki að tala um neina smáupphæðir. Ef Íbúðalánasjóður getur ekki staðið í skilum þá erum við að tala um skuldbindingar, sem hingað til hefur verið litið á að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir, sem eru 700–800 milljarðar. Það eru gífurlegar upphæðir, fleiri hundruð milljarðar sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir gagnvart Íbúðalánasjóði.

Hér er bent á að eiginfjárhlutfall sjóðsins sé komið í 1,4% en ætti að vera 5% að lágmarki og stjórnvöld þurfa náttúrlega að svara því skýrt hvort þau ætli ekki að leggja sjóðnum til aukafjármagn.

Hvað varðar hins vegar umræðuna um vaxtaálagið hjá Íbúðalánasjóði eða þau vaxtakjör sem þar er verið að bjóða, þá held ég að mjög brýnt sé að forsvarsmenn og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar skoði frekar ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, líkt og við framsóknarmenn leggjum til að verði gert í frumvarpi okkar um að setja þak á verðtrygginguna og leita leiða til að lækka vexti. Það held ég að sé algert lykilatriði því að þeir sem hafa fyrst og fremst verið að fjármagna Íbúðalánasjóð eru lífeyrissjóðirnir. Og ef maður skoðar vaxtamuninn á milli Íslands og nágrannalanda okkar virðist hann einmitt liggja sirka á þessum 3,5% sem hafa verið viðmiðið varðandi ávöxtun lífeyrissjóðanna, 3,5%–4%. Það er því mjög brýnt að það verði skoðað samhliða.