141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið til umræðu lengur en ég hef setið á þingi. Ég hef verið í samskiptum við forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna þessa máls að undanförnu með það í huga að reyna að leysa þetta til frambúðar. Í þeim samtölum sem ég hef þar átt hefur komið fram að undan þessu hefur verið kvartað í allmörg ár og síðast held ég að framlög til þessa málaflokks hafi verið lækkuð talsvert í fjárlögum 2008. Þar áttu sér stað einhver samtöl milli sveitarstjórnarmanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og stjórnvalda hins vegar. Síðan gerist það í kjölfar efnahagshrunsins að niðurskurður til þessara mála varð allnokkur.

Það er fullur vilji til þess af minni hálfu í það minnsta, og ég held að einnig sé einhugur um það í fjárlaganefnd, að við þurfum að bregðast við þessum þáttum með einhverjum hætti. Eins og réttilega kom fram hjá hv. þingmanni og fyrirspyrjanda er mikil áhersla lögð á þetta af hendi sveitarfélaga og þeirra sem málið varðar. Það er vaxandi kostnaður af þessum veiðum og örugglega meiri en oft áður í kjölfar þeirra atburða sem gerðust í haust.

Ég reikna með því og hef um það gögn að kostnaður við þessar veiðar gæti numið eitthvað á annað hundrað milljónum á næsta ári, 120–130 millj. kr., sem er gríðarlegur kostnaður því oft er þetta kostnaður sem lendir á fámennum sveitarfélögum, sveitarfélögum sem hafa ekki úr miklu að moða.

Ég get einfaldlega svarað þessu á þann veg að þessi mál eru til umræðu í fjárlaganefnd og ég held að fullur vilji sé til þess hjá fjárlaganefnd að finna leiðir til að bregðast við þessu. Tillögur í þá veru verða að bíða 2. umr. fjárlaga en viljinn er svo sannarlega fyrir hendi.