141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna og annarra á minnisblöðum sem ég hef fengið frá hæstv. fjármálaráðherra út af Byr og SpKef. Eins og menn vita hefur mikið þurft til til að fá upplýsingar þar. Flest svörin eru útúrsnúningar og ekki svarað en hér eru þó hlutir sem ég tel að þingheimur verði að skoða.

Það segir, með leyfi forseta, þegar spurt er um hóp sem hélt utan um vinnu í tengslum við Sparisjóðinn og SpKef:

„Fjármálaráðuneytið stýrði vinnu hópsins og greiddi þóknun til þeirra utanaðkomandi sérfræðinga sem leitað var til. Ekki var hins vegar haldið sérstaklega um greiðslur til sérfræðinganna vegna vinnu sem tengdist Byr sparisjóði eða Sparisjóðnum í Keflavík. En umræddir sérfræðingar unnu á sama tíma fleiri verkefni fyrir ráðuneytið.“

Ég vek athygli á því að hér eru bara sendir inn reikningar og ekki tilgreint fyrir hvað. Hér eru í það minnsta tugir milljóna undir, jafnvel hundruð milljóna.

Hér segir líka, með leyfi forseta:

„Vinnuhópurinn skilaði ekki sérstökum minnisblöðum til fjármálaráðuneytisins vegna vinnu hans og eru þau vinnugögn sem hópurinn aflaði sér í fórum þeirra sem sátu umrædda fundi en ekki í skjalavistunarkerfi ráðuneytisins.“

Virðulegi forseti. Um er að ræða vinnuhóp sem vinnur í mörg ár og undir eru tugir milljarða og ekki er til stafkrókur í ráðuneytinu um hvað hann var að gera og öll gögn eru hjá þeim sem voru í nefndinni þó svo að þeir séu allir ráðuneytisfólk.

Einnig vil ég vekja athygli á því að nú hefur það verið upplýst að þrátt fyrir að það hafi verið skylda Fjármálaeftirlitsins í fjögur ár að fylgjast með slitastjórnum hefur það ekki verið gert. Laun hafa hækkað úr 2,4 millj. kr. á mánuði í 5,6 millj. kr. og það hefur ekki verið neitt eftirlit af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Það var upplýst á nefndarfundi í morgun.

Á sama hátt hefur ekkert verið fylgst með því hver viðskipti þessara slitastjórnarmanna hafa verið við eigin fyrirtæki og hafa engar athugasemdir komið frá ríkisstjórn, Fjármálaeftirlitinu eða Seðlabankanum út af þessum launagreiðslum. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir gríðarlega miklar athugasemdir frá hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) var það upplýst að engar athugasemdir hafa komið frá þeim.