141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrirspurnina. Ég held að við deilum báðir áhyggjum af Íbúðalánasjóði. Að minnsta kosti réði ég orð hans þannig að það væri áhyggjuefni hvernig fyrir honum væri komið. Íbúðalánasjóður hefur eins og allir aðrir orðið fyrir verulegum áföllum í kjölfar hrunsins og síðan var honum einnig ætlað aukið hlutverk til að bregðast við vaxandi skuldum heimilanna og einstaklinga í landinu, skuldara. Stjórnvöld ætluðu Íbúðalánasjóði annað og meira hlutverk en öðrum lánastofnunum.

Allt þetta og margt fleira hefur orðið til þess að Íbúðalánasjóður hefur orðið fyrir meiri skakkaföllum en menn bjuggust við í upphafi og leitt til þess að ríkissjóður hefur þurft að leggja honum til fé. Það er væntanlega það sem hv. þingmaður er að spyrja hér um.

En svo að það komi líka fram þá segir meðal annars í tilkynningu frá Moody's sem Bloomberg-fréttaveitan sendi á alla þingmenn í morgun að hætta sé á því að Íbúðalánasjóður lendi í greiðslufalli ef íslensk stjórnvöld grípa ekki til einhverra aðgerða eða leggja honum til fé. Það kemur jafnframt fram hjá þeim fulltrúa Moody's sem fjallar um þetta mál að gengið sé út frá því og reiknað með því að íslensk stjórnvöld geri það og styðji við sjóðinn eins og við höfum hingað til gert. Við höfum verið nokkuð sammála um það, ef ég man rétt, í þeim afgreiðslum sem við höfum farið með í gegnum þingið, bæði í fjárlögum og fjáraukalögum undanfarinna ára.

Til að svara fyrirspurn þingmannsins á ég ekki von á öðru en að við stöndum áfram vörð um Íbúðalánasjóð eins og mögulegt er og komum honum í gegnum þessar hremmingar sem vissulega eru honum erfiðar og okkur öllum. Við munum standa þétt við bakið á honum eins og við höfum gert hingað til.