141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[15:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum í tengslum við þær breytingar sem á Stjórnarráði Íslands hafa orðið og voru í þingsályktun sem Alþingi samþykkti 11. maí síðastliðinn og tóku gildi 1. september. Frumvarp þetta var samið í samvinnu hlutaðeigandi ráðuneyta og felur í sér breytingar á nokkrum lögum, aðallega til þess að skýra verkaskiptingu milli umhverfis- og auðlindaráðuneytis annars vegar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hins vegar.

Fyrst vil ég segja að almennt leiða þær breytingar sem gerðar voru á verkaskiptingu ráðuneyta með forsetaúrskurði ekki til lagabreytinga. Ástæðan er sú að með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, var mörkuð sú stefna að fagheiti ráðherra og ráðuneyta yrðu ekki lengur tilgreind í lögum. Þess í stað yrði forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna tæmandi heimild um þau verkefni sem ráðherrar fara með og fjallað er um í lögum. Í samræmi við þetta voru gerðar breytingar á ýmsum lögum þar sem fagheiti ráðherra eða ráðuneytis koma fyrir á þann veg að í stað fagheitisins kom hugtakið „ráðherra“ eða „ráðuneyti“.

Þetta leiðir meðal annars til þess að engar lagabreytingar þurfti að gera í tengslum við flutning verkefna frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til fjármála- og efnahagsráðuneytis, svo sem á sviði hagstjórnar eða málefna Hagstofu og Seðlabankans.

Þá þurfti heldur engar lagabreytingar í tengslum við verkefnaflutning frá iðnaðarráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti til atvinnuvegaráðuneytisins. Hvað varðar nánari útlistun á verkefnum einstakra ráðuneyta vísast til forsetaúrskurðar sem fylgir með frumvarpinu.

Meginefni frumvarpsins tengist þannig breyttum áherslum í tengslum við breytta skipan ráðuneyta og tæknilegar breytingar sem meðal annars tengjast fækkun ráðuneyta. Hlutaðeigandi ráðuneyti höfðu samstarf við þær ríkisstofnanir sem málið varðar og voru ekki gerðar athugasemdir af þeirra hálfu utan að Veiðimálastofnun gerði athugasemdir við eitt atriði, sem nánar verður vikið að hér á eftir.

Ég mun hér fyrst gera grein fyrir meginákvæðum frumvarpsins og því næst fjalla stuttlega um önnur ákvæði þess.

Fyrst eru það breytingar tengdar Hafrannsóknastofnun. Hafrannsóknastofnunin heyrir eftir sem áður undir það ráðuneyti sem fer með sjávarútvegsmál. Nýr forsetaúrskurður kveður þó á um þá mikilvægu stefnubreytingu að undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti heyrir „stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu auðlinda“. Í því ljósi eru hér lagðar til breytingar á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuvega sem lúta að því að sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra, hafi aðkomu að verkefnum Hafrannsóknastofnunarinnar sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Í því sambandi er lagt til í þessu frumvarpi að stofnuð verði sérstök fjögurra manna samstarfsnefnd ráðuneytanna tveggja um langtímanýtingarstefnu fyrir fiskstofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins. Sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar skipar nefndina sem er vettvangur fyrir samstarf ráðuneytanna um mótun langtímanýtingarstefnu. Koma tveir frá hvoru ráðuneyti og skiptast fulltrúar ráðuneytanna á um formennsku í nefndinni í eitt ár í senn.

Hafrannsóknastofnun skal móta rannsóknastefnu og veita ráðgjöf um nýtingu á grundvelli þessarar stefnu þegar hún liggur fyrir. Þetta er í samræmi við umfjöllun í tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem samþykkt var á síðasta þingi. Þar er gert ráð fyrir að mælt verði fyrir um „fastmótaðan og lögbundinn farveg sameiginlegrar vinnu ráðuneytanna við undirbúning ákvarðana um nýtingu“. Það er síðan ráðherra sjávarútvegsmála sem tekur ákvörðun um árlegan heildarafla úr hverjum nytjastofni og setur eftir atvikum aflareglur til fleiri ára í senn á grundvelli langtímanýtingarstefnu. Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin starfi þannig að hún nái hverju sinni sameiginlegri niðurstöðu. Takist það ekki skal ráðherra gerð grein fyrir ágreiningi og ástæðum hans.

Með langtímanýtingarstefnu er átt við stefnu um nýtingu fiskstofna og eftir atvikum annarra auðlinda hafsins sem er mótuð af stjórnvöldum. Það er nýmæli í lögum þótt í raun hafi slík stefna verið til staðar varðandi fiskveiðistjórn. Með langtímanýtingarstefnu eru lagðar línur um hvernig nýta skuli og byggja upp mismunandi nytjastofna þar sem sjálfbærni verður ávallt höfð að leiðarljósi og tekið jöfnum höndum tillit til líffræðilegra, hagrænna og félagslegra þátta. Langtímarannsóknastefna Hafrannsóknastofnunar tekur síðan mið af stefnumótun stjórnvalda um nýtingu auðlindarinnar og felur í sér að skilgreindar eru áherslur í stefnu stofnunarinnar til lengri tíma. Með opinberri nýtingarstefnu er átt við nýtingarstefnu stjórnvalda. Rannsóknastefna Hafrannsóknastofnunar er sú stefna sem Hafrannsóknastofnun vinnur eftir.

Þá felur frumvarpið einnig í sér breytingar á stjórnskipulagi Hafrannsóknastofnunar. Gerðar eru breytingar á núverandi ráðgjafarnefnd stofnunarinnar þannig að bæði ráðherrar sjávarútvegsmála og sjálfbærrar þróunar skipa nefndarmenn. Ráðgjafarnefndinni er fyrst og fremst ætlað að fjalla um langtímastefnumótun fyrir stofnunina, vera forstjóra til ráðgjafar um þau málefni sem hann kýs auk þess að vera samráðsvettvangur stofnunarinnar, hlutaðeigandi ráðuneyta og atvinnugreinarinnar.

Loks eru ákvæði um stjórn stofnunarinnar felld niður og verksvið forstjóra aukið nokkuð. Það er í samræmi við þá þróun að afleggja stjórnir í opinberum stofnunum og skýra og skerpa með því rekstrarlega ábyrgð forstjóra. Þau stjórnunarverkefni sem áður voru í höndum stjórnar falla nú undir forstjóra.

Þá vík ég næst að breytingum sem tengjast flutningi Jarðasjóðs. Samkvæmt forsetaúrskurðinum eru mál er varða Jarðasjóð ríkisins færð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Hér er einungis um að ræða flutning á hefðbundinni eignaumsýslu en mikilvægt er að hún sé samræmd innan ríkiskerfisins. Undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti heyra hins vegar önnur verkefni tengd jörðum og er það aðallega og einkum vísað til jarðalaga.

Gert er ráð fyrir að hlutverki Jarðasjóðs ríkisins verði sinnt á skrifstofu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem annast eignir ríkisins. Af því leiðir að gera þarf breytingu á lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992, nánar tiltekið fella brott tilvísun til sérstakrar jarðadeildar ráðuneytisins.

Þá eru næst breytingar sem tengjast málefnum dýraverndar. Mál er varða dýravernd hafa verið færð frá umhverfisráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Af því leiðir að gera þarf breytingu á lögum um dýravernd sem og lögum um Umhverfisstofnun og Matvælastofnun og þessar breytingar fela nánar tiltekið í sér það hlutverk Umhverfisstofnunar, sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti, að annast starfsemi dýraverndar og framkvæmd dýraverndarlaga flyst til Matvælastofnunar sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Færsla dýraverndarmála byggist á því mati að þannig verði eftirlit með dýravernd skilvirkara í heild sinni. Með því að dýraverndarmál færast til Matvælastofnunar er flestum þeim verkefnum er varða velferð dýra komið á eina hönd. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Umhverfisstofnun munu þó áfram hafa með höndum þá þætti dýraverndar sem lúta að lögum um vernd, friðun og veiðar villtra fugla og villtra spendýra, svo sem aðferðir við veiðar.

Næst eru breytingar sem tengjast Veiðimálastofnun. Samkvæmt forsetaúrskurðinum heyra rannsóknir á lífríki í ám og vötnum og ráðgjöf um nýtingu þeirra undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Af því leiðir að Veiðimálastofnun flyst undir það ráðuneyti. Áður heyrði stofnunin undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Til grundvallar þessum flutningi er að Veiðimálastofnun er fyrst og fremst rannsóknastofnun en stjórnsýsla á þessu sviði hjá Fiskistofu.

Ástæða lagabreytinga nú er sú að samhliða þessari breytingu er áformað að nefndarmönnum í ráðgjafarnefnd forstjóra Veiðimálastofnunar verði fjölgað um einn og skal hinn nýi nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Þar sem stofnunin hefur nú verið færð á milli ráðuneyta þykir einnig nauðsynlegt að gera breytingar á tilteknum ákvæðum laga um lax- og silungsveiðar, nánar tiltekið með þeim hætti að stofnunin veiti óbindandi umsagnir um nánar tilgreindar ákvarðanir Fiskistofu sem heyrir undir annað ráðuneyti. Af hálfu Veiðimálastofnunar kom fram andstaða við fyrirhugaðar breytingar þar sem ekki væri þörf á að breyta lögum utan þess að bæta við tengilið í ráðgjafarnefndina en ráðuneytin eru ósammála því mati stofnunarinnar.

Fiskistofa og Veiðimálastofnun heyra nú hvor undir sitt ráðuneytið en báðar stofnanirnar voru undir sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti áður.

Virðulegi forseti. Ég vík næst að breytingum í tengslum við utanumhald verndar- og orkunýtingaráætlunar. Samkvæmt forsetaúrskurðinum er rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða færð frá iðnaðarráðuneyti til umhverfis- og auðlindaráðuneytis en með því móti verður yfirsýn yfir auðlindir á einum stað. Þessi tilfærsla kallar á breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í stað þess að sá ráðherra sem fer með orkumál undirbúi og leggi fram áætlun í samráði við ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar mun sá síðarnefndi leggja fram áætlunina í samráði við þann fyrrnefnda.

Þá eru það önnur ákvæði frumvarpsins. Tvö ákvæði frumvarpsins, í 4. og 5. gr., kveða á um breytta verkaskiptingu ráðuneyta og stofnana vegna tiltekinna umsagna á grundvelli auðlindalaga og laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Hér er lagt til að Orkustofnun fái umsagnir um tilteknar leyfisumsóknir frá tilgreindum stofnunum í stað þeirra ráðuneyta sem fara með náttúruvernd og rannsóknir, verndun og nýtingu hafsbotnsins. Þær stofnanir sem hér um ræðir eru eftir atvikum Hafrannsóknastofnunin, Mannvirkjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veiðimálastofnun og Umhverfisstofnun. Tilgangurinn er að meðferð mála af þessu tagi verði skilvirkari og skjótari en nú er, enda hefur framkvæmdin í raun verið sú að ráðuneytin hafa leitað til þessara stofnana. Orkustofnun heyrir nú undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en var áður undir iðnaðarráðuneyti.

Eitt ákvæði, þ.e. 12. gr., kveður á um að í stað tilgreiningar á málaflokkum ráðherra komi eingöngu hugtakið „ráðherra“ samanber þá stefnu sem mörkuð var með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands og áður var minnst á. Kæmu tveir eða fleiri ráðherrar við sögu var vísað til þess eða þeirra ráðherra sem ekki báru meginábyrgð á framkvæmd laganna með því að tilgreina viðkomandi stjórnarmálefni, væri það ekki augljóst af samhengi. Láðst hefur að taka nægilegt mið af framangreindu við undirbúning löggjafar um loftslagsmál, nr. 70/2012, og í frumvarpi þessu er því lagt til að þar verði gerð breyting á.

Eitt ákvæði, þ.e. 7. gr., fjallar um breytta skipan Vísinda- og tækniráðs í tilefni af fækkun ráðuneyta og þar sem skipunartími ráðsins rann út í júní síðastliðnum. Að óbreyttu mun sá ráðherra sem fer með atvinnuvega- og nýsköpunarmál tilnefna þrjá en mennta- og menningarmálaráðherra einn.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands sem ég hef hér mælt fyrir verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 2. umr.