141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli hv. þingmanns komu nú ekki fram neinar beinar fyrirspurnir út af því frumvarpi sem ég mælti fyrir hér. Hann er þekktur, sá ágreiningur sem er milli stjórnarflokkanna og Sjálfstæðisflokksins, að minnsta kosti hvað varðar breytingar sem voru gerðar á Stjórnarráðinu og meðal annars hvað varðar þá breytingu að stofna atvinnuvegaráðuneyti. Ég held að sú niðurstaða sem hér er fengin varðandi breytingar á Hafrannsóknastofnun sé unnin í ágætu samráði við Hafrannsóknastofnun og ég tel að þar hafi vel til tekist.

Verkaskipting er skýr á milli þessara tveggja ráðuneyta þannig að ákvörðun varðandi úthlutun heildaraflamarks er áfram í höndum þess sem fer með sjávarútvegsmál en ég tel eðlilegt að það sé ákveðin aðkoma eins og hér er gert ráð fyrir með skipun sérstakra fjögurra manna samstarfsnefnda ráðuneyta um langtímastefnu fyrir fiskstofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins. Þá erum við að tala um þann ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar. Ég held því að bærilega vel hafi til tekist varðandi þessa breytingu og veit ekki til annars en að þeir sem stjórna Hafrannsóknastofnun séu bærilega ánægðir með þá breytingu sem hér er lögð til.