141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[15:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað getum við ekki sagt til um reynsluna af þessu fyrirkomulagi varðandi stjórn Hafrannsóknastofnunar fyrr en hún birtist. En eins og svo oft áður þá velti ég því fyrir mér hvers vegna í veröldinni verið er að fara út í breytingar þar sem ekkert vandamál er til staðar. Ef það eru rökin fyrir því að umhverfisráðherra eigi að tilnefna menn í þessa nefnd að gæta þurfi sjónarmiða um sjálfbæra þróun, þá finnst mér eiginlega að útskýra þurfi með einhverjum hætti að þeirra sjónarmiða hafi ekki verið gætt.

En eins og ég segi hef ég aldrei í opinberri umræðu hér á landi heyrt Hafrannsóknastofnun gagnrýnda fyrir að sinna verndarsjónarmiðum of lítið. Ég heyri hins vegar mjög oft, og hef heyrt um langa hríð, gagnrýni frá sjómönnum og frá útgerðarfyrirtækjum um að Hafrannsóknastofnun sé of stíf á verndarsjónarmiðunum. Þannig að tilgangur þessara breytinga er mér ekki ljós þó að ég (Forseti hringir.) taki undir það með hæstv. forsætisráðherra að auðvitað verður reynslan að skera úr um það.