141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki rétt framsetning hjá hv. þingmanni að verið sé að taka ráðherraábyrgðina með einhverjum hætti úr sambandi eins og hv. þingmaður orðaði það. Ef vafi leikur á því hver ber ábyrgð á hverjum málaflokki eða málefni fyrir sig þá er einfaldast að fara í forsetaúrskurðinn þar sem það er vel tilgreint, og fylgir hann með sem fylgiskjal með frumvarpinu, hvaða málefni nákvæmlega heyra undir hvert ráðuneyti fyrir sig. Það er því alls ekki óljóst hver ber ráðherraábyrgðina í hverjum málaflokki fyrir sig. Það hefur ekkert breyst við þetta.