141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar Íslendingar tala um auðlindir tala þeir yfirleitt um sjávarútveg annars vegar og orku hins vegar. Nýverið eru menn farnir að tala um olíuvinnslu og titla sig meira að segja sem olíumálaráðherra. En það vill svo til að með þeim úrskurði sem forseti Íslands felldi að tillögu forsætisráðherra með gildistöku 1. september, þá eru þessi atriði ekki undir auðlindaráðuneytinu, þ.e. hvorki Orkustofnun, Hafrannsóknastofnun né olíuvinnslan, það er ekkert af þessu undir auðlindaráðuneyti, þó að þetta séu auðlindir. Ég vil spyrja: Hvernig stendur á því að auðlindaráðuneytið fer ekki með, fyrst menn eru að kalla ráðuneytið þessu nafni, rannsóknir á þessum meginauðlindum landsins?

Síðan er Hafrannsóknastofnun, þar er verið að gera mjög skrýtna hluti sem leiða til þess að maður sér ekki hvar ábyrgðin liggur. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra tilnefnir tvo menn í svokallaða ráðgjafarnefnd, stjórnin er lögð af og forstjórinn fær þá aukið vægi. Auðlindaráðherra tilnefnir tvo og síðan er það LÍÚ og Farmanna- og fiskimannasambandið með sameiginlega tilnefningu. Ef þessir tveir ráðherrar ná ekki saman þá er það LÍÚ sem ræður, herra forseti. Þetta finnst mér vera mjög undarleg lausn á þeirri stofnun og spurningin er: Hvað gerist ef menn ná ekki saman, eru ekki sammála? Hver er það sem ber eiginlega ábyrgð? Er það forstjórinn, hvor ráðherrann er það o.s.frv.?