141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að efna til langrar umræðu um málið í dag en vil hins vegar ítreka þær athugasemdir sem ég gerði áðan um Hafrannsóknastofnun. Ég held að þetta sé vandræðafyrirkomulag sem þarna er verið að boða og þótt við hæstv. forsætisráðherra séum sammála um að reynslan ein muni skera úr um það, þá vil ég að það komi skýrt fram í þinginu að ég vara við því fyrirkomulagi. Svo mun reynslan leiða í ljós hvort þetta gengur upp eða ekki eins og gengur.

Hitt atriðið sem ég nefndi í fyrra andsvari mínu varðar rammaáætlun. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að í lögum um rammaáætlun, sem heitir auðvitað lengra nafni en við skulum kalla rammaáætlun til að skýra hlutina — að lagabreyting verði á þeim tilteknu lögum, sérlögum um rammaáætlun, þannig að forræði hennar færist frá atvinnuvegaráðuneyti, áður iðnaðarráðuneyti, til umhverfisráðuneytis. Það er sem sagt núna í október verið að leggja til þessa breytingu.

Forsetaúrskurður sem vísað er til í frumvarpinu er frá því í ágústlok. Þar kemur vissulega fram að rammaáætlun, undir hinu lengra og formlega nafni, tilheyri umhverfisráðuneyti en ekki atvinnuvegaráðuneyti. Forsetaúrskurðurinn er byggður á tillögu forsætisráðherra. Tillaga forsætisráðherra átti að fá umfjöllun í þinginu áður en hún færi til forseta. Þannig var hugsunin þegar lagabreytingin var gerð í september 2011 á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þó að svigrúm, getum við sagt, ríkisstjórnar varðandi breytingu á verkaskiptingu ráðuneyta yrði aukið þá var það engu að síður niðurstaðan í september 2011 að það væri þingið sem ætti að taka hina stefnumarkandi pólitísku ákvörðun um þessi atriði, það væri þingið. Þess vegna varð niðurstaðan sú eftir mikið japl, jaml og fuður í september 2011 að forsætisráðherra ætti að sýna þinginu á spilin, sýna hvað hún — eða hann í öðrum tilvikum — ætlaði sér með þeim breytingum sem fyrirhugaðar væru á verkaskiptingu ráðuneyta. Það var hugmyndin, hygg ég. Ég held að ekki þurfi að leita mikið í þingskjölum til að finna út úr því að það hafi verið sameiginlegur skilningur manna að hin raunverulega breyting, hið aukna svigrúm sem fælist í þeirri breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands sem samþykkt var í september 2011, fæli í sér að í stað þess að breytingar á ráðuneytum þyrftu að fara hér í gegn í formi lagafrumvarpa nægði að gera þingsályktunartillögu sem væri þá sá grunnur sem forsætisráðherra byggði tillögu sína á til forseta varðandi skiptingu verkefna milli ráðuneyta.

Ég fór að velta því fyrir mér þegar ég sá þá lagabreytingu, sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, hvort það hefði verið eitthvað í þingsályktunartillögunni, sem hér er byggt á, sem fjallaði um rammaáætlun. Svo er ekki, hæstv. forseti. Það sem kom inn í úrskurð forseta, væntanlega samkvæmt tillögu forsætisráðherra, á sér ekki stoð í þingsályktunartillögunni um verkaskiptinguna sem lögð var fyrir Alþingi og byggt er hér á. Mér finnst ástæða til að gera athugasemdir við þetta af því að auðvitað er ljóst að þarna var mál sem er pólitískt umdeilt, pólitískt viðkvæmt, og það gat verið pólitískt viðkvæmt eða pólitískt umdeilt að færa forræði rammaáætlunar með svo skýrum hætti frá atvinnuvegaráðuneyti, áður iðnaðarráðuneyti, til umhverfisráðuneytis. En þingsályktunartillagan sem hæstv. forsætisráðherra byggði tillögu sína á gerir ekki ráð fyrir þessu. Tillögutextinn er afar stuttorður og fjallar bara um heiti ráðuneyta en ég finn ekki heldur í greinargerð sem lögð var fram með þingsályktunartillögunni neitt um þennan tilflutning rammaáætlunar.

Í fljótu bragði, og mun verða hægt að skoða það betur síðar, finn ég heldur ekkert í nefndaráliti um að það sé með skýrum hætti verið að flytja rammaáætlun frá iðnaðarráðuneyti, nú atvinnuvegaráðuneyti, til umhverfisráðuneytis. Ég verð að gera athugasemdir við þetta, hæstv. forseti, vegna þess að þarna held ég að hæstv. forsætisráðherra hafi kannski talið svigrúm sitt meira en niðurstaða löggjafans var í september 2011 því þarna er ótvírætt um að ræða mál sem hefur verið umdeilt á hinum pólitíska vettvangi. Það hefur meira að segja verið deilt um það í þinginu til hvaða nefndar það tiltekna þingmál ætti að fara. En það er ekki með þeim hætti að flutningur rammaáætlunar frá iðnaðarráðuneyti, nú atvinnuvegaráðuneyti, til umhverfisráðuneytis byggi á einhverju sem fram kemur í þingsályktunartillögunni eða lýsir með einhverjum hætti vilja Alþingis. Ég veit ekkert hver vilji Alþingis er í þessum efnum eða var á þeim tíma. Ég man það ekki. En ef hægt er að benda mér á að fram hafi komið með skýrum hætti að það hafi verið vilji Alþingis þegar sú þingsályktunartillaga var samþykkt að rammaáætlun flyttist með skýrum hætti frá atvinnuvegaráðuneyti til umhverfisráðuneytis, þá yrði ég þakklátur ef mér yrði bent á það, en svo er ekki.

Ég verð eiginlega að líta svo á að nú í fyrsta sinn sé að koma hér fyrir þingið þingmál sem felur það í sér að verið sé að færa forræði rammaáætlunar frá atvinnuvegaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Ég verð að líta svo á að nú verði það hugsanlega í fyrsta skipti — ég segi það með fyrirvara um að ég hef ekki lagst í mikla rannsóknarvinnu um þetta en ég finn bara ekkert í þingsályktunartillögunni og fann ekkert í nefndaráliti um þetta. Ég hygg að þetta sé þá í fyrsta sinn sem þessi tilflutningur á sér stað frá atvinnuvegaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Það vekur auðvitað spurningar um ýmis þau rök sem notuð voru fyrir því fyrr í haust að umhverfisráðherra í fyrsta lagi flytti málið en ekki iðnaðarráðherra eða atvinnuvegaráðuneyti eins og gert var á síðasta vori, fyrir einungis fáeinum mánuðum.

Þetta vekur líka spurningar um þá ákvörðun þingsins að senda málið til umhverfisnefndar þar sem ég á sæti og er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri umfjöllun sem þar á sér stað. En það vekur engu að síður spurningar um forsendur þeirrar atkvæðagreiðslu sem fór fram í síðustu viku. Hér kom einn hv. þingmaður í ræðustól og lýsti því yfir að meginrökin fyrir því að þetta færi til umhverfisnefndar þingsins væru þau að umhverfisráðherra hefði flutt málið. Það virðist ekki byggt á mjög traustum forsendum, hæstv. forseti, svo ekki sé meira sagt.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en ég kalla hins vegar eftir því að ef einhver gæti bent mér á að það hafi verið stefnumarkandi ákvörðun Alþingis að færa rammaáætlun frá atvinnuvegaráðuneyti til umhverfisráðuneytis, þá lýsi ég eftir því og tek þá til baka þá gagnrýni sem ég hef haft í frammi. En ég hygg að það hafi bara aldrei á þetta reynt, það hafi ekkert komið fram í þingsályktunartillögunni á sínum tíma eða í umfjöllun um hana að rammaáætlun ætti að færast til umhverfisráðherra. Ég held að gert hafi verið ráð fyrir því að þetta yrði einhvers konar samkrull milli þessara tveggja ráðuneyta. En hins vegar rekast þá einhver óljós áform um aukið vægi umhverfisráðherra í þessu sambandi á við skýrt lagaákvæði sem núna eftir dúk og disk kemur upp tillaga um að breyta.