141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hér sé á ferð einhver misskilningur, kannski af því að menn eru ekki vanir breytingunni sem orðið hefur á lögum um Stjórnarráð Íslands. Sú breyting sem við fjölluðum um á síðasta þingi kveður einungis á um fjölda ráðuneyta og heiti þeirra sem var í 4. gr. stjórnarráðslaganna. Það sem verið er að gera núna er að leggja til breytingar í samræmi við forsetaúrskurðinn og forsetaúrskurðurinn, sem fylgir með sem fylgiskjal, er ekki lagður fyrir þingið. Ég held að þetta sé alveg skýrt og það kemur fram í forsetaúrskurðinum að áætlun, vernd og orkunýting landsvæða eigi að falla undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið eins og kemur fram á bls. 21 í frumvarpinu. Síðan er kveðið á um það í XI. kafla að rammaáætlunin falli undir umhverfisráðuneytið og það er það ráðuneyti sem fer með málefni náttúruverndar. Ég held að þetta sé alveg skýrt. Það er kannski af því að menn hafa ekki vanist því hvernig þetta mál liggur eftir að þessi grundvallarbreyting var gerð á Stjórnarráðinu að það er fjöldi ráðuneyta og heiti sem ákveðin eru í lögum og annað er ákveðið með forsetaúrskurði.

Við getum síðan verið ósammála um það, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, hvort rammaáætlun eigi að falla undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða atvinnuvegaráðuneytið