141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áður en ég lýk þessari umræðu af minni hálfu, því ég ætla ekki að fara í fleiri ræður um þetta mál núna, vildi ég geta þess að þetta skiptir dálitlu máli af því að nú reynir á breytinguna á lögum um Stjórnarráð Íslands, sem samþykkt var í september 2011, í fyrsta sinn. Það reynir á þingsályktunartillöguna sem fór í gegnum þingið og forsetaúrskurðinn sem á að byggjast á henni o.s.frv. Mér finnst því mikilvægt að þetta sé allt klárt.

Við stöndum frammi fyrir því í þinginu að lagabreytingin sem hæstv. forsætisráðherra leggur fyrir þingið í október 2012 er til þess að staðfesta breytingu sem hæstv. forsætisráðherra hefur þegar framkvæmt þrátt fyrir að þessu lagaákvæði hafi ekkert verið breytt fram til þessa. Lagaákvæðið stendur óbreytt þannig að það er atvinnuvegaráðuneyti eða atvinnuvegaráðherra sem hefur forræði á flutningi rammaáætlunar fyrir þingið. Þannig eru landslög og breytingin sem nú gengur í gegnum þingið er til að breyta atriði sem þegar hefur breyst í raun. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvernig vinnubrögðin í þessu sambandi eru.

Ég tel mikilvægt fordæmisins vegna að vel verði farið yfir þetta í nefndinni og þess vegna af hálfu lögfræðinga ráðuneytisins og annarra þannig að gengið verði úr skugga um að hér hafi ótvírætt verið gengið til verka með réttum hætti.

Ég ítreka að eini dómurinn sem fallið hefur um árekstur forsetaúrskurðar og landslaga að þessu leyti er frá 1954 og hann kvað á um það að lögin skyldu gilda en forsetaúrskurðurinn ekki.