141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram hefur komið að þetta er í þriðja sinn sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram frumvarp á þingi um breytingu á upplýsingalögum. Fyrri frumvörp hafa fengið töluverða umfjöllun, bæði í allsherjarnefnd í hittiðfyrra og í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrra. Ég ætla að segja það strax að sum atriði hafa breyst til batnaðar. Ég skal skrifa undir það. Ég held engu að síður að þetta mál krefjist töluverðrar yfirlegu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að menn nái almennilega að átta sig á þeim breytingum sem hér er verið að gera. Sumir þættir málsins hafa verið ræddir ítarlega, aðrir síður en nú gefst auðvitað tækifæri til þess.

Hæstv. forsætisráðherra deildi við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um það hvort þetta frumvarp horfði til opnunar eða minni upplýsingagjafar. Ég hygg að hin ólíku ákvæði frumvarpsins geti virkað í mismunandi áttir. Það kann að vera að bæði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hæstv. forsætisráðherra hafi að nokkru leyti rétt fyrir sér í þessu máli. Ég held að sum atriðin í þessu frumvarpi séu vissulega til þess fallin að auka upplýsingarétt almennings, ef við orðum það með þeim hætti. Önnur atriði óttast ég að verði til að takmarka upplýsingarétt almennings. Ég vísa til þess að við umfjöllun málsins á fyrri stigum hafa til dæmis blaðamenn og fleiri haft áhyggjur af tilteknum þáttum í því sambandi, m.a. með tilliti til skilgreiningar vinnugagna og fleiri slíkra þátta. Ég er ekki viss um að allt frumvarpið eða öll ákvæði þess horfi í þá átt að auka upplýsingarétt. Ég held þvert á móti að sum ákvæðin séu til þess fallin að þrengja að upplýsingaréttinum.

Ég ætla ekki að fara í smáatriðum út í þetta. Ég held að réttara sé að tala um einstök atriði þegar við erum búin að fara aftur yfir þetta í nefndum. Ég vil þó nefna í örstuttu máli nokkur atriði sem ég held að séu enn þess eðlis að umræða um þau sé þörf. Ég er til dæmis að velta fyrir mér 2. gr. Þar er um að ræða almenna reglu sem felur í sér að starfsemi lögaðila, sem eru 51% eða meira í eigu hins opinbera, heyri undir lögin en síðan koma undantekningar sem eru nokkuð víðtækar. Þar kemur fyrst og fremst til sú málsgrein greinarinnar sem lýtur að heimild forsætisráðherra — það er reyndar bara sagt ráðherra í textanum en væntanlega er verið að vísa til forsætisráðherra — til að undanþiggja hlutafélög eða félög í blandaðri eign upplýsingalögum ef starfsemi þeirra er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði. Undir það hygg ég að ansi mörg fyrirtæki sem menn hafa í huga geti fallist. Ég man eftir miklu fleiri dæmum, ef við getum orðað það svo, um opinber fyrirtæki sem eru í samkeppni en þau sem ekki teljast í samkeppni. Sennilega mundi ÁTVR ekki teljast í samkeppni þó að það sé umdeilanlegt. Auðvitað er salan sem þar fer fram í samkeppni við ákveðna aðra sölustarfsemi í landinu en þetta ákvæði mundi þó væntanlega eiga við um ÁTVR. Þetta mundi trúlega eiga við um Isavia. Miðað við þessa undanþágu gætu fyrirtæki á borð við Landsbankann, sparisjóðina eða önnur slík fyrirtæki vísað til samkeppnissjónarmiða og fengið þar með undanþágu.

Ég hygg að þegar ráðherra tekur ákvörðun um að undanþiggja samkeppnisfyrirtæki upplýsingalögunum þá gildi einhverjar almennar reglur eða almenn viðmið en ekki geðþóttaákvarðanir um það hvort fyrirtæki teljist falla undir þessa undanþáguheimild eða ekki. Ég geri ráð fyrir því að umsagnir Samkeppniseftirlitsins um svona fyrirtæki hljóti að byggja á einhverjum almennum jafnræðissjónarmiðum þannig að ekki verði sagt: Ja, þetta fyrirtæki er að vísu í samkeppni en mér finnst að upplýsingar um það eigi að vera opinberar. Svo er eitthvert annað fyrirtæki sem er líka í samkeppnisrekstri að jafnmiklu leyti og hitt eða meira leyti eða minna leyti og menn segja sem svo: Nei, nei, þetta eru ekki upplýsingar sem varða almenning, þetta eru samkeppnisupplýsingar, þess vegna skulum við ekki veita aðgang að því.

Ég hef áhyggjur af því að þarna sé öðrum þræði verið að gefa í skyn að opnunin sé meiri og nái til fleiri fyrirtækja en mun verða í raun. Hins vegar ætla ég að ítreka það sem ég hef svo sem sagt áður í umræðum í þinginu og í nefndinni að með vissum hætti er varasamt að fela einum ráðherra slíka ákvörðun. Reyndar er búið að ganga þannig frá því að leitað verði umsagna eins og hér kemur fram, sem er að mínu mati eitt af því sem bætir frumvarpið frá því sem áður var, þó að enn séu ákveðin vafaatriði.

Í 3. gr. hef ég líka ákveðnar spurningar um skilgreiningar. Það er talað um einkaaðila sem er falið opinbert verkefni og vísað til að það geti verið stjórnvaldsákvarðanir, allt í lagi, eða sinni þjónustu sem kveðið er á um í lögum. Við vitum að þarna er fyrst og fremst verið að hugsa um að upplýsingaskyldan nái til verktaka sem taka að sér einhver verk á vegum opinberra aðila en ég hygg samt sem áður að þarna geti í raun orðið um nokkuð óljós mörk að ræða.

Ég ætla að fara hratt yfir sögu. Frá því að þetta mál kom fyrst inn í þingið hefur vakið mestan áhuga minn hvernig farið er með það sem kallað er samkvæmt 6. gr. gögn undanþegin upplýsingarétti og síðan vinnugögn sem vísað er sérstaklega til og fjallað um í 8. gr. Þarna hefur vissulega orðið ákveðin opnun frá því að frumvarpið var lagt fram í fyrsta sinn. Mörg af þeim gögnum sem hér er vísað til eiga að vera aðgengileg almenningi að átta árum liðnum frá því að þau verða til. Það er munur frá því sem er í dag þegar um er að ræða 30 eða jafnvel 40 ár í einhverjum tilvikum þar sem átta ár eru auðvitað miklu skemmri tími. Ég bendi þó mönnum á til upplýsingar að kjörtímabil hér er fjögur ár þannig að þarna er um að ræða tvö kjörtímabil sem geta liðið frá því að einhver gögn sem geta haft mikla pólitíska þýðingu koma fram, gögn sem hafa mikil áhrif á ákvarðanir ríkisstjórna eða annað þess háttar, til að því sé haldið til haga að opnunin er ekki meiri en svo. Fundargerðir ríkisstjórna og gögn sem þeim fylgja verða aðgengileg að átta árum liðnum. Ég ætla ekkert að segja til um það í þessari ræðu, standandi í ræðustól þingsins, hver sá árafjöldi á nákvæmlega að vera en ég vek þó athygli á því að þarna er rætt um átta ár í þessu sambandi sem er töluvert lengri tími en margir hafa talað um í þessum sölum.

Ég er ekki í hópi þeirra sem vilja ganga lengst að þessu leyti, alls ekki, og er ekki hrifinn af öllu því sem hér hefur komið fram frá meiri hluta allsherjarnefndar eða öðrum um þau efni á síðustu tveimur þingum. Ég held að nauðsynlegt sé að trúnaður sé um það sem á sér stað á ríkisstjórnarfundum og í einhvern tiltekinn tíma. Kannski eru átta ár niðurstaða í þessu sambandi en ég vek þó athygli á því að á vettvangi þingsins hafa verið uppi kröfur um að mun meiri aðgangur yrði veittur og mun fyrr af þeim upplýsingum sem tengjast til dæmis ríkisstjórnarfundum. Sama á við um önnur gögn sem tengjast 8. gr., vinnugögn, og þó að þessi mál hafi vissulega fengið töluverða umræðu í nefndum nú þegar tel ég að enn sé ástæða til að ræða þetta þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fær málið aftur til skoðunar. Ég ætla ekki að fjalla um þetta að öðru leyti, hæstv. forseti.

Við vitum að töluvert flókin álitamál hafa verið um aðgang að gögnum hjá Þjóðskjalasafni og tengsl við önnur lög eins og getið er um í síðasta kafla frumvarpsins. Við vitum að þar hafa skoðanir verið skiptar. Það hafa verið sjónarmið sagnfræðinga, skjalavarða og ýmissa hópa sem að þessum málum koma og eru að vinna með þessi gögn að þarna sé ástæða til að gera athugasemdir. Ég hef ekki mikla sérþekkingu á þessu sviði en ég held að við þurfum engu að síður að veita þeim athygli áður en þetta frumvarp verður að lögum.

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að upplýsingalög eru afar mikilvæg. Ég hygg að allir séu sammála um það að upplýsingalögin sem hér tóku gildi fyrir nærfellt tveimur áratugum hafi verið mikið framfaraskref. Ég held að upplýsingalögin sem voru fyrstu upplýsingalög hér á landi hafi gert mikið gagn og að við megum ekki vanmeta það sem vel hefur verið gert í þeim efnum. Ég held til dæmis að starfsemi úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafi líka verið mikilvæg og veitt núgildandi lagaákvæðum töluvert skýrara inntak en verið hefur fram til þessa.

Ég hef áhyggjur af því og mun vissulega spyrja um það í nefndinni hvort nægilega vel sé búið að henni varðandi starfsmenn, aðstöðu og annað þess háttar þannig að hún geti sinnt hlutverki sínu vegna þess að dragist mál á langinn í meðförum nefndarinnar getur það réttaröryggi sem starfsemi hennar hefur í för með sér rýrnað. Stundum hafa úrskurðir komið seint. Þá hafa þeir kannski frekar haft, ég segi ekki sögulegt gildi en þeir hafa haft gildi frá fræðilegu sjónarmiði frekar en að þeir hafi hjálpað til í þeim tilteknu málum sem kært var út af. Ég veit að á fyrri árum hafa verið gerðar athugasemdir við það að nefndin hafi ekki haft aðstöðu til að sinna hlutverki sínu nægilega vel. Ég mun auðvitað spyrja hvernig staðan sé varðandi þau mál í nefndinni.

Ég ætla ekki að taka fyrir að það sé ástæða til að endurskoða ákveðna þætti upplýsingalaga og er því ekki alfarið á móti þessu frumvarpi. Ég tel þvert á móti að í því séu ákvæði sem geti verið til góða og skilað árangri. Ég hef meiri efasemdir um ýmis önnur ákvæði eins og ég hef aðeins drepið á.

Hér hefur stundum verið talað um að þetta mál hafi tekið langan tíma í meðförum þingsins. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki neikvætt. Ég held að það sé ekki neikvætt að þetta mál fái fleiri en tvær yfirferðir á vettvangi þingsins. Ég held að grundvallarlöggjöf af þessu tagi eigi einmitt að ákveðast af yfirvegun og að vandlega athuguðu máli miklu frekar en í fljótræði. Í sumum tilvikum er hið besta mál að þingið ljúki ekki meðferð mála á því þingi sem þau koma fram. Það er oft ágætt að fá yfirferð, síðan hvíld frá málinu, aðra yfirferð og fleiri álit og fleiri sjónarmið til að komast að skynsamlegri niðurstöðu því að ég held að löggjöf eins og löggjöf um upplýsingamál eigi að vera þess eðlis að hún eigi að geta staðið um alllanga tíð.