141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir yfirferð hans yfir frumvarpið. Ég er talsmaður þess að hér séu sett vönduð lög og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hvert frumvarp sé rætt kannski á einum, tveimur þingum og að frumvarp verði ekki að lögum á einu þingi.

En það sem hefur gerst í íslenskri löggjöf eftir að ég settist á þing, og hefur kannski verið stundað um langa hríð, er að það er alltaf bætt inn í frumvörpin á milli ára þannig að þingið er alltaf að fást við ný og ný álitamál í hverju frumvarpi fyrir sig þannig að frumvörpin fitna og fitna og það koma sífellt ný álitamál inn í þau.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna dæmi um eitt slíkt atriði og í rauninni hræsni ríkisstjórnarinnar í málum er snúa að upplýsingarétti. Í 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, sem voru samþykkt í fyrra er kveðið á um að allir fundir ríkisstjórnarinnar skulu vera hljóðritaðir, sem er algjört nýmæli. Ég hef bent á og hef haldið fast við þá skoðun mína alla tíð síðan ákvæðið fór inn í það frumvarp og varð síðar að lögum að ekki eigi að hljóðrita ríkisstjórnarfundi því þá beinlínis fara ákvarðanirnar út úr Stjórnarráðinu og eru teknar á öðrum stöðum ef ríkisstjórnarfundir eru hljóðritaðir. Og svo er ákvæði um að það eigi að birta hljóðritanir eftir svo og svo mörg ár. Endaði í átta árum.

Hvað dúkkar upp í frumvarpi þessu um upplýsingalög sem við erum með til umfjöllunar? Jú, með leyfi forseta, í umfjöllun um 1. tölulið 6. gr. frumvarpsins, ekki-ákvæðisgreininni stendur:

„Í ákvæðinu er þó mælt fyrir um það nýmæli að undir undanþáguna falli ekki aðeins fundargerðir ríkisráðs og ríkisstjórnar, heldur einnig upptökur og endurrit af fundum ríkisstjórnar.“

Hvað finnst þingmanninum um að verið sé að opna á hljóðritanir í einum lögum og loka þeim svo í þessum lögum í stað þess að fella þetta ákvæði brott úr lögunum um Stjórnarráð Íslands?