141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Eins og við höfum rætt hér er verið að opna á hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum. Það mál hefur farið tvisvar í gegnum þingið, fyrst með samþykkt stjórnarráðslaganna, síðan með frestun á gildistökuákvæðinu og svo á það ákvæði að taka gildi núna 1. nóvember þannig að nú er þingið komið í hálfgerða sjálfheldu með það því að tíminn líður og hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum hefjast 1. nóvember á þessu ári ef ekki verður hægt að gera hér lagabætur með einhverjum hætti til að hægt sé að loka það niðri. Hér er það beinlínis lagt til í frumvarpi þessu því að eins og ég fór yfir áðan þá stendur í athugasemdum um 1. tölulið 6. gr. „að undir undanþáguna falli ekki aðeins fundargerðir ríkisráðs og ríkisstjórnar, heldur einnig upptökur og endurrit af fundum ríkisstjórnar“.

Virðulegi forseti. Þetta er nú allt gegnsæið því að svo segir, með leyfi forseta:

„Æskilegt er að taka af skarið um þetta í ljósi ákvæðis 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, um að fundir ríkisstjórnar skuli hljóðritaðir.“

Virðulegi forseti. Þetta er nú allt gegnsæið sem núverandi ríkisstjórn talaði um.

Annað sem ég ætlaði að tala um í ekki-greininni í 6. gr. er 4. töluliður. Samkvæmt þessu á að taka af allan vafa um hvaða gögn eru aðgengileg almenningi við samningu lagafrumvarpa. Hér er sett inn ákvæði sem er talið þurfa að vera í lögunum vegna þess að gögn sem eru notuð í Stjórnarráðinu til að undirbúa lagafrumvörp eru með þeim hætti að þau þola ekki dagsljósið eða eiga ekki erindi til almennings. Sérstaklega er það einkennilegt í ljósi þess að það var yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að auka gegnsæi í lagasetningu. Hér er verið að loka það niðri í skjölum (Forseti hringir.) Þjóðskjalasafnsins. Hvað finnst þingmanninum um það?