141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

46. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli hér fyrir því máli sem forseti gat um. Efnislegur kjarni þess er sá að selir séu settir inn í lög sem í daglegu tali eru kölluð villidýralög, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum frá 1994, og gerðar þær breytingar aðrar á þeim lögum sem við á. Þar á meðal er kveðið á um sérstök griðasvæði sem selir hafi í kringum landið.

Ég ætla að tæpa á greinargerðinni sem við flutningsmennirnir höfum látið fylgja þessu frumvarpi, sem eru hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir og Árni Þór Sigurðsson auk mín. Birgitta gat ekki verið hér í dag og Árni Þór er með fjarvist, hér er varamaður fyrir hann, þannig að það dæmist á mig að mæla fyrir þessu og ég geri það reyndar með sérstakri ánægju og þakka þeim Birgittu Jónsdóttur og Árna Þór Sigurðssyni sérstaklega fyrir samstarfið við þetta mál og tvö önnur sem við flytjum um sjávarspendýr, hvali, sem hafa bæði farið í gegnum fyrri umræður því að þau eru þingsályktunartillögur, annað um gagngera endurskoðun á lögum og stefnu Íslendinga í hvalveiði- og hvalfriðunarmálum og hitt um griðasvæði hvala — það kann að vera að það hafi ekki farið í gegnum fyrri umræðu. Öll þrjú málin voru líka flutt í fyrra. Þeir sem hér sitja eiga því að kannast við þessi mál.

Selir eru ekki taldir til villtra dýra í lögum sem um þau gilda, villidýralögunum. Lög sem gilda um seli eru Jónsbókarákvæði frá 13. öld ásamt tilskipun konungs um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849, ákvæði um seli er að auki að finna í lögum um selaskot á Breiðafirði og uppidráp frá 1925, lögum um útrýmingu sels í Húnaósi frá 1937, lögum um lax- og silungsveiði frá 2006 um takmarkaðan þátt í selamálum og í landskiptalögum frá 1941.

Samkvæmt lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá 1965 ber Hafrannsóknastofnuninni að afla alhliða þekkingar um hafið og lífríki þess og meta nýtingarmöguleika á auðlindum hafsins, þar koma selirnir inn. Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur frá 1992 er kveðið á um skyldu stofnunarinnar til að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra. Þar með má segja að selir falli undir Náttúrufræðistofnun og um leið Hafrannsóknastofnun.

Heildarlög sem fjalla um vernd og veiðar eru ekki til fyrir seli og fyrir löngu orðið tímabært að setja slík lög enda eiga meginreglur umhverfisréttar og velferðar dýra að gilda um seli líkt og önnur spendýr.

Áður hefur verið reynt að færa lög um seli og selveiðar til nútímans en án árangurs. Frumvarp um selveiðar var lagt fram á Alþingi veturinn 1983–1984 en dagaði þá uppi og í frumvarpi til gildandi villidýralaga sem samþykkt var 1994 var gert ráð fyrir að lögin næðu til sela. Selaákvæðin í frumvarpinu voru hins vegar felld brott á síðustu stundu skömmu áður en Alþingi samþykkti lögin um vorið og þá kom fram í ræðu umhverfisráðherra, sem þá var Össur Skarphéðinsson, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, við 2. umr. að greiða ætti úr málinu sumarið eftir en það var ekki gert.

Það er full ástæða til að flokka sel með öðrum villtum dýrum og láta þessa skepnu njóta þeirrar verndar sem villidýralögin veita, m.a. hvað varðar veiðar. Þetta frumvarp miðar einmitt að því.

Vakin skal athygli á því að núverandi lagarammi um seli, sá sem rakinn var hér áðan, er ekki í samræmi við Bernarsamninginn um vernd villtra dýra og plantna og búsvæða þeirra sem Íslendingar fullgiltu árið 1993, árið áður en villidýralögin voru afgreidd á þinginu án sérstaks fyrirvara um sel. Samkvæmt 7. gr. samningsins skal gera ákveðnar ráðstafanir til að tryggja vernd dýra sem heimilt er að veiða, tegundirnar eru taldar upp í viðauka III við samninginn, og þar á meðal er friðun á ákveðnum árstímum eða traust veiðistjórn sem nær sama árangri, möguleiki á veiðibanni ef við á til að endurheimta viðunandi stofnstærð og viðurkenndar reglur um sölu og flutning til sölu lifandi dýra eða skrokka og afurða. Þessi ákvæði eiga við allar selategundir við landið, bæði staðseli og farseli, og meðan þetta stendur, sem það hefur gert í næstum 20 ár, þá erum við í skömm gagnvart þessum mikilvæga alþjóðasamningi sem er ein af undirstöðum umhverfisréttarins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að selveiðar verði áfram heimilar enda aldagömul hefð og hluti af mikilvægum hlunnindum ýmissa bænda. Rétt er að leggja áherslu á það nú í framsöguræðunni að hér er engan veginn verið að hreyfa við veiðum á sel. Hvergi mun selveiði þó stunduð nú sem sjálfstæð atvinnugrein og viðskipti með selaafurðir eru hverfandi og enginn útflutningur.

Taki villidýralögin einnig til selsins fer stjórn selveiða fram samkvæmt þeim lögum, samanber 3. gr. um umsjón verndar, friðunar og veiða og 11. gr. um veiðikort og hæfnispróf. Með þessum hætti mundi meðal annars linna seladrápi sem nú er stundað sem eins konar skotíþrótt án nytja að því er okkur hefur verið tjáð. Þá mundu veiðar á borð við þær sem hringormanefnd hefur haldið uppi, og er nú heldur minni völlur á þeirri nefnd en áður var, en slíkar veiðar mundu ekki líðast í sama horfi, samanber 1. mgr. 7. gr. þeirra laga sem hér eru undir.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti mælt fyrir um sérstök griðasvæði sela í samráði við landeigendur og viðeigandi stofnanir og samtök, svo sem Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun, Bændasamtök Íslands, samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu og umhverfis- og útivistarsamtök. Slík griðasvæði þarf að velja þannig að þau stuðli sem best að viðgangi selastofna en gæta um leið að hæfilegri fjarlægð frá veiðiám og fiskimiðum sem viðkvæmust eru gagnvart ágangi selsins. Í þessu sambandi þarf einnig að taka tillit til hagsmuna sem tengjast ferðaþjónustu, samanber velheppnað selasetur við Húnaflóa. Slík griðasvæði þykja sjálfsögð í grannlöndum okkar. Þau tryggja dýrunum frið frá veiðum og geta jafnframt skapað kjörinn vettvang til selaskoðunar þar sem aðstæður henta. Griðasvæðin þarf að skilgreina sérstaklega, m.a. með tilliti til annarra veiða svo sem grásleppuveiða þar sem selur er algengur meðafli, bæði kópar og fullorðin dýr. Það mætti reyndar ræða grásleppuveiðar og selamál nokkra stund en það varðar ekki meginefni þessa frumvarps og verður því sleppt að gera það hér.

Samkvæmt gildandi lögum, þ.e. tilskipuninni um veiði á Íslandi frá 1849 frá Danakonungi, má enginn skjóta landsel eða útsel á fjörðum eða víkum, þar sem eru látur eða lagnir, nær en 900 metra. Þetta eru lög nr. 116/1990. Fiskistofu er þó heimilt að ósk veiðifélags að ófriða látur að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar og Veiðimálastofnunar en aldrei hefur reynt á það ákvæði. Það eru lögin frá 2006. Staðan er því sú að landselur og útselur njóta griðasvæða samkvæmt núgildandi lögum þótt þau lög hafi verið nánast óvirk og sú breyting sem hér er lögð til er því tiltölulega smávægileg frá sjónarhorni laganna þó að hún muni kannski verða virkari gagnvart dýrinu en nú er.

Vöðusel og annan farsel, þ.e. hringanóra, blöðrusel og kampsel, má hver maður hins vegar skjóta eða veiða utan netlaga samkvæmt núverandi lögum nema hvað takmarkanir gilda í grennd við selalátur og eggver. Með þessu frumvarpi yrðu ekki beinlínis breytingar þar á en slíkar veiðar yrðu háðar sérstöku leyfi ráðherra enda hafa þær ekki verið stundaðar hér að marki síðustu áratugi og slíkt leyfi yrði væntanlega fyrst og fremst gefið vegna rannsóknarveiða eða veiða til þess að koma í veg fyrir spjöll eða ágang dýranna.

Frumvarpið sem hér um ræðir var fyrst flutt á 140. þingi, þ.e. síðasta þingi, en náði ekki afgreiðslu og er nú endurflutt með breytingum sem var meðal annars bent á í ýmsum vönduðum umsögnum til umhverfis- og samgöngunefndar við meðferð málsins. Þær umsagnir voru frá Náttúrufræðistofnun, Samtökum náttúrustofa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hafrannsóknastofnun, Bændasamtökunum og Samtökum selabænda sem var skemmtileg umsögn og afar vel skrifuð og í henni ýmsar meiningar, en hana skrifaði Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði sem ég ræddi síðan við um nokkur atriði í umsögninni. Þessar umsagnir hafa sem betur fer bætt málið, það er breytt frá síðasta þingi þannig að nú er meðal annars gert ráð fyrir því að ráðherra geti heimilað veiðar á farsel svo sem í rannsóknarskyni og vegna sérstaks ágangs eins og ég nefndi áðan. Þá er hér bann við veiðum í látrum og grennd þeirra og það skilgreint nákvæmar en var og stuðst við fjarlægðamörk 17. gr. um fuglabjörg sem eru nokkuð þrengri en núgildandi ákvæði um láturvernd í tilskipuninni frá 1849. Þetta þurfti auðvitað að skoða í nefndinni í ljósi umsagna sem bárust um málið.

Í þeim umsögnum sem ég nefndi er meðal annars bent á að rostungur telst ekki til sela en sú villa hafði slæðst inn í síðasta frumvarp og er okkur flutningsmönnum ekki til hróss en rostungar eru auðvitað hreifadýr (Pinnipedia) en ekki af selaætt (Phocidae) og mynda sérstaka ætt, þ.e. Odobenidae-ættina. Rostungar eru ekki nefndir í undantekningarákvæðum 2. mgr. 2. gr. laganna og það merkir að þeir njóta alfriðunar samkvæmt 6. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og þarf því ekki að fást meira um þá. Rostungar verða ekki veiddir að lögum við Íslandsstrendur.

Við leggjum til að í 9. gr. villidýralaganna sé gert ráð fyrir hefðbundnum aðferðum við selveiðar utan láturhelgi og griðasvæða. Eins og ég sagði áðan er ekki gert ráð fyrir að þeim selveiðum sem hér fara fram sé breytt að neinu ráði þótt selurinn fari í þann lagabálk þar sem hann á heima. Í villidýralögunum er reyndar getið sérstaklega um kópanet, í 4. tölulið 9. gr. laganna. Við flutningsmenn tökum fram að með 3. gr. frumvarpsins, þar sem talað er um breytingar í 3. tölulið 9. gr., er ekki lýst neinni sérstakri afstöðu flutningsmanna til þeirra veiðiaðferða sem um ræðir. Við fylgjum enn þeirri stefnu að gera ekki tillögur um neinar breytingar á selveiðum, nema þær sem koma beinlínis fram í ákvæðinu um griðasvæði og fleira, heldur miðar þetta fyrst og fremst að því að koma selnum í það lagalátur þar sem hann á best heima.

Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst að tryggja að selur njóti þeirrar verndar sem okkur er skylt að veita honum, m.a. vegna skuldbindinganna í Bernarsamningnum, að selveiðar gangi ekki nærri stofnum og að skipulag við selveiðar sé með svipuðum hætti og við veiðar villtra dýra sem fjallað er um í lögunum sem tryggir fulla skráningu veiddra dýra sem nú er nokkuð áfátt og ætti að gefa góða yfirsýn um selveiðar og stöðu selastofna.

Að lokum legg ég til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.