141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

atkvæðagreiðslur um þjóðréttarlegar skuldbindingar o.fl.

[10:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í atkvæðagreiðslunni næstkomandi laugardag mun þjóðin gefa vísbendingu um hvað hún vill í þessum efnum. Við hljótum að taka mið af því sem kemur fram í þeirri atkvæðagreiðslu. Síðan eru það þættir sem hljóta að sjálfsögðu að koma til kasta Alþingis sem lögum samkvæmt hefur með höndum breytingu á stjórnarskránni. Þar hef ég vísað í þætti sem ég nefndi sérstaklega áðan um beint lýðræði, um skilgreiningar á eignarréttinum sem ég tel vera of þröngar í báðum tilvikum og um 72. gr. stjórnarskrárinnar sem ég tel ekki rétt að fella úr gildi. Það eru ýmsir þættir sem hefði mátt spyrja þjóðina um núna, t.d. varðandi þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ég hef aldrei farið leynt með þessa afstöðu mína. Hún hefur komið fram í (Forseti hringir.) skrifum mínum og í skýringum við atkvæðagreiðslur hér á þingi.