141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

reglugerð um innheimtukostnað.

[10:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að á leiðinni sé reglugerð frá innanríkisráðherra um hvaða kostnað megi krefja skuldara um í lögfræðiinnheimtu. Ráðherrann hefur oft og iðulega talað máli þeirra sem höllum fæti standa og hér er brýnt að skjóta skildi fyrir fólk í veikri stöðu sem á við miklum mun sterkari aðila að eiga oft á tíðum. Það er grundvallaratriði að leikreglur séu sanngjarnar í þeim samskiptum. Auðvitað eiga menn að greiða kostnað sem af vanskilum þeirra hljótast og greiða þær skuldir sem þeir hafa stofnað til, en við höfum því miður í sögunni allt of mörg dæmi um að kostnaðarkröfur séu óhóflegar. Þær kröfur sem hafa verið nefndar á fundum efnahags- og viðskiptanefndar eru satt að segja ævintýralegar á köflum þar sem kröfufjárhæðin sjálf er orðin algjört aukaatriði en kostnaðurinn við lögfræðiinnheimtuna (Forseti hringir.) marg-, margfaldur á við kröfuna.