141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

barnaverndarlög.

65. mál
[11:03]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er í raun og veru einfalt mál sem er bara frestun tilfærslu milli stjórnsýslustiga, en það eru mikil vonbrigði að engin undirbúningsvinna skuli hafa farið fram um þetta mikilvæga mál sem heimili og stofnanir fyrir börn í neyð eru. Það er nauðsynlegt að slík heimili séu til með hæfu, vel menntuðu starfsfólki sem kann til verka við að lina neyð barna. Það er algjörlega nauðsynlegt að öll börn, óháð búsetu, hafi aðgang að slíkum heimilum. Það er því eðlilegt að rekstur slíkra heimila sé í höndum ríkisins. Velferðarnefnd telur eðlilegt að leitað sé annarra leiða en beinnar gjaldtöku, t.d. með samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um verkefnaskiptingu, til að tryggja megi að sveitarfélög veigri sér ekki við að senda barn í neyð á slíkt heimili vegna gjaldtöku. Um leið og ég segi já við þessari frestun hvet ég velferðarráðherra til að hefja nú þegar undirbúning að farsælli tilfærslu verkefnisins.