141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir það skringilega mál sem komið er fyrir þingið. Í gær voru rædd upplýsingalög og er alveg hreint með ólíkindum að málið sem nú er til umræðu skuli ekki vera rætt samhliða vegna þess að svo einkennilega vill til að hér er lagt til að breyta eigi ákvæði um hljóðritun á ríkisstjórnarfundum. Ég hef alltaf talið að ekki eigi að hljóðrita ríkisstjórnarfundi. Í upplýsingalögunum sem voru til umræðu í gær segir að þau gögn sem skulu undanþegin upplýsingarétti skuli vera upptökur og endurritun af fundum ríkisstjórnarinnar.

Því spyr ég hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar: Af hverju förum við ekki beint inn í lögin um Stjórnarráð Íslands og fellum út 4. mgr. 7. gr. sem snýr að því að fundirnir skulu hljóðritaðir?