141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:02]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi Íslendinga hóf hljóðritanir, ekki í gær eða fyrradag og ekki við valdatöku ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur heldur hófust hljóðritanir á þingfundum árið 1952. Íslenska þingið er með fyrstu þingum í Evrópu og fyrst allra Norðurlandaþinga til að hefja hljóðritanir.

Ég er mjög þakklátur fyrir þær hljóðritanir vegna þess meðal annars að til er hljóðritað svar við spurningu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir bar upp í andsvari sem kom fram í ræðu minni áðan. Sem sagt, ég mun styðja ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á leiðarenda nema hún gangi endanlega af vitinu, það mun ég gera en ég mun ekki styðja þetta fáránlega frumvarp, þetta líknarmorð. Ég mun verja þessa stjórn vantrausti á sama hátt og ég hef gert og ég er stoltur af stuðningi mínum við þessa merkilegustu ríkisstjórn lýðveldissögunnar og læt engan bilbug á mér finna í því sambandi.

Hitt get ég alveg sagt hv. þingmanni og hverjum sem heyra vill, og má gjarnan hljóðrita það og varðveita, að mér finnst þetta vera blettur á glæsilegum ferli Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra.