141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir þessi húrrahróp sem voru hljóðrituð frá þingmanninum varðandi árangur þessarar ríkisstjórnar en nú er það upplýst að hv. þm. Þráinn Bertelsson ætlar að styðja ríkisstjórnina, sama hvað það kostar. Hann hefur augljóslega fengið undanþágu frá stjórnun hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að sitja hjá í þessu máli eða greiða atkvæði gegn því. En ég vil minna á og rifja það aftur upp að hv. allsherjarnefnd klofnaði á sínum tíma meðal annars út af andstöðu þingmannsins um að hljóðritanir ríkisstjórnarfunda ættu ekki að vera í frumvarpinu.

Hljóðritanirnar komu inn í frumvarpið milli 2. og 3. umr. og óþarfi er að rifja það upp aftur en það er augljóst að þingmaðurinn er á harðahlaupum undan þeirri prinsippafstöðu sinni því að nú er lagt til að ríkisstjórnarfundir verði ekki hljóðritaðir heldur fari þeir í einhverja skýrslugerð og heimildir forsætisráðherra til að birta hvað er talað um á ríkisstjórnarfundum o.s.frv.

Þingmaðurinn sagði um frumvarpið að verið væri að fremja hér líknarmorð en líknarmorð er heiti á þeim atburði þegar deyjandi manni, sem vill deyja, er hjálpað til að deyja og það er kannski það sem þingmaðurinn er að lýsa með núverandi ríkisstjórn. Líklega er ríkisstjórnin að biðja um líknarmorð, ég veit það ekki, en það er ósmekklegt að vera að líkja þessu saman, og er ég að vísa í orð þingmannsins.