141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðu hans hér.

Mig langar í byrjun að spyrja þingmanninn spurningar. Hann barðist mjög fyrir því, ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar, að ríkisstjórnarfundir skyldu hljóðritaðir og nú er verið að víkja frá því samkvæmt þessu lagafrumvarpi. Hann talar um að breytingartillagan sem liggur nú fyrir á lögum um Stjórnarráðið sé framför. Framför frá hverju? Og er þessi breytingartillaga fullnægjandi fyrir þingmanninn til að hann haldi áfram að styðja ríkisstjórnina?

Það vill nefnilega þannig til, eins og ég hef komið að áður, að samspil er á milli þessara laga og upplýsingalaganna vegna þess að þau eru hér líka til umræðu. Og þó að kveðið sé á um að falla eigi frá þessum hljóðupptökum og fara í staðinn í skýrslugerð og birtingu fundargerða og annað með þeim skilyrðum sem þarna eru sett er samt ákvæði í frumvarpi til laga um upplýsingalög um að hljóðritanir ríkisstjórnarfunda skuli undanþegnar. Hvenær á þá það ákvæði að virka fyrst verið er að leggja til að þetta falli niður?

Það er einkennilegt hvernig þetta er unnið í forsætisráðuneytinu og þingmaðurinn fór yfir það hverjir hefðu samið þetta frumvarp. Ég læt það liggja á milli hluta hvort þetta sé gert til að auka leyndarhyggju, ég ætla ekki að tjá mig um það.

Hér er undanþáguákvæði sem á að koma inn í 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráðið, að heimilt sé að undanskilja mál á ríkisstjórnarfundum þegar málefnalegar ástæður réttlæta að vikið sé frá meginreglum um birtingu, að mati ríkisstjórnarinnar. Er hv. þingmaður ekki hræddur um að verði þetta að lögum fari þessi undanþága að vera (Forseti hringir.) meginregla í störfum ríkisstjórna framtíðarinnar í stað þess að vera undanþága?