141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:29]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé hér að að einhverju leyti er talað um þetta undanþáguákvæði þar sem verið er að fjalla um mál sem eru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum, umfjöllun ríkisstjórnar er ólokið eða endanleg ákvörðun í máli liggur ekki fyrir. Þetta virðist við fyrstu sýn einfaldlega vera ákvæði um það að mál séu í vinnslu og stjórnvöld þurfi ákveðinn vinnufrið til að ljúka þeim. Deila má um hvort birta eigi þau eða að þau hafi verið á dagskrá ríkisstjórnarfunda, ég veit ekki um það, en vissulega þurfa stjórnvöld ákveðinn starfsfrið, þannig að ég held ekki að sú undanþága yrði endilega mjög slæm.

Þetta mál þokast áfram. Það var vitað að gera ætti breytingar á þessum lögum og hér eru þær breytingar komnar fram. Og þó að ég telji þær ekki góðar eru þær þó framför því að það er verið að reyna að leysa málið. (Forseti hringir.) En ég held að það þurfi að leysa það með öðrum hætti.