141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:30]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Þór Saari um álit hans á þeim samtíningi úr álitsgerðum háskólakennaranna sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur fram sem rök fyrir þessu frumvarpi sínu.

Hér stendur til að mynda, með leyfi forseta:

„Breyta þyrfti ýmsum lagaákvæðum til að tryggja að ekki yrði veittur aðgangur að þeim“ — hljóðritununum — „fyrr en eftir 30 ár og þeim ákvæðum væri auðvitað hægt að breyta aftur væri vilji til þess á Alþingi.“

Þetta þýðir nákvæmlega, ef þessi rök eru gild, að við getum lokað sjoppunni hérna og farið heim og látið duga þau lög sem eru í gildi á landinu vegna þess að öllum lögum er hægt að breyta og alltaf er hægt að setja ný lög í staðinn. Ef menn geta ekki sett lög af ótta við að þeim verði breytt síðar þá er verksviði okkar lokið. Þá ættum við að samþykkja að það megi ekki breyta lögum og láta það gott heita að lifa við þau lög sem eru nú í gildi. Þetta eru rökin. Rökin eru líka, eins og ég vék að, að þetta tíðkast ekki annars staðar. Eru einhver önnur rök hérna? Svo kemur einhver ranghugmynd um að þetta leiði til þess að ríkisstjórnarfundir verði hreinir afgreiðslufundir og pólitískt samráð og raunveruleg ákvarðanataka færist annað. Það hefur aldrei staðið til að þessar hljóðritanir væru heimild um pólitíska ákvarðanatöku heldur bara um formlega fundi ríkisstjórna. Hvar pólitískt samráð fer fram verður ekki varðveitt með hljóðritunum, það dettur engum manni í hug og hefur aldrei dottið í hug nema þeim háskólakennara sem skrifaði þetta álit og var að reyna að tína saman eitthvert rugl til að (Forseti hringir.) nota sem rök gegn þessu máli.