141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:32]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Þráni Bertelssyni um að hvorugt þessara álita sé höfundum þeirra til sóma. Ég tel að þau séu skrifuð gagngert til þess að verja einfaldlega framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnina með ráðum og dáð til að koma í veg fyrir þessar breytingar og þetta gagnsæi.

Sumt af rökstuðningnum er réttmætt en niðurstöðurnar eru í anda þess sem beðið er um. Það er beðið um rökstuðning til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir. Mér finnst það leiðinlegt því að ef einhverjar stofnanir í samfélögum manna eiga að byggja á gagnsæi og upplýsingum þá eru það háskólar. Þar er uppspretta þekkingar, þar er uppspretta vitneskju, þar er uppspretta samræðu og þar á leyndarhyggja ekki að þekkjast. Það er greinilegt af þessum álitum að í hugmyndaheimum þessara manna er leyndarhyggja ófrávíkjanlegur hluti af stjórnkerfinu og stjórnsýslunni. Mér þykir leitt að háskólaprófessorar skuli ekki taka sér stöðu með gagnsæi og upplýsingu heldur með leyndarhyggju.