141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:39]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki auðvelt að svara þessu. Það gerist stundum að þingmenn koma í andsvör án þess að hafa verið viðstaddir umræðuna og spyrja þess vegna algjörlega út í hött. Því miður er það í þessu tilfelli hjá hv. þm. Pétri Blöndal.

Ég talaði aldrei um að þetta frumvarp væri til bóta. Ég talaði hér áðan um að það væri framför vegna þess að það væri að þoka málinu áfram úr þeirri biðstöðu sem það var komið í. Ég gagnrýndi málið harðlega og hef gagnrýnt það á öllum stigum þess. Ég hef barist fyrir miklum breytingum á því. Menn komust að samkomulagi um hljóðritanirnar á sínum tíma til að geta klárað málið. Þetta hefði þingmaðurinn allt saman vitað ef hann hefði setið undir umræðunni hérna rétt áðan.

Hvað varðar nefndaskipanina í upphafi þingsins þá var það einfaldlega svo að þinghópur Hreyfingarinnar kom inn á þing algjörlega blautur á bak við eyrun hvað þingstörf varðar. Það kom ekki til okkar einn einasti þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks til að ræða nefndaskipan við okkur, ekki einn einasti. Við spurðum skrifstofustjóra þingsins með hvaða hætti skipað væri í nefndir á þinginu og hann útskýrði það fyrir okkur. Á endanum komumst við að samkomulagi við meiri hlutann um það að við fengum fleiri nefndasæti en ella og þeir líka ef við skipuðum nefndasætum í samstarfi við þá. Slíkan díl hefðum við aldrei fengið hjá Sjálfstæðisflokknum, ég er alveg viss um það, og ekki heldur hjá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.)

Svona leiddi hroki þessara flokka einfaldlega til þess í upphafi kjörtímabilsins að nefndaskipan raðaðist með þessum hætti. Það er ekki við okkur að sakast.