141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir þau orð hv. þingmanns að ekki er hægt að festa allt í lög. Það er álitamál hversu nákvæm fyrirmæli á að greina í lagatexta. Ég held að það sem hér er að finna megi alveg að skaðlausu setja inn og býst við því að þetta sé í raun og veru í samræmi við málsmeðferðina eins og hún hefur afar oft verið í framkvæmd. Það er ekki alltaf en afar oft að ríkisstjórn birtir hvaða mál eru tekin fyrir á dagskrá og ráðherrar gera síðan grein fyrir því, ef þeir eru spurðir um það, hvað hafi falist í einstökum málum. Fínt mál.

Það er sennilega enginn skaði skeður þó að þetta sé í þessum lagatexta. Það felst ákveðin stefnuyfirlýsing í þessu en það sem ég bendi á er bara að ef ríkisstjórn, hvort sem í henni eru þeir sem nú sitja eða þeir sem taka við næsta vor eða hverjir sem það eru, vill halda einhverju fyrir sig þá getur hún gert það á grundvelli þessara takmörkunarákvæða. (Gripið fram í: Já.) Það er því ekki mikið hald í þessu þó að stefnumiðið sé raunar jákvætt.

En um þetta mál er kannski aðeins það að segja að þegar löggjafinn fer í svona hring með mál á tiltölulega stuttum tíma þá hlýtur það að vekja einhverjar spurningar um hvernig vinnubrögðin voru í upphafi. Eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni áðan þá tel ég að við eigum fyrst og fremst að hafa það í huga og reyna eftir atvikum að læra af því.