141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:06]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Mig langar að kveðja mér hljóðs í þessari umræðu án þess þó að fara í langa ræðu, til þess að setja málið í það samhengi sem ég tel að það eigi að skoðast í, sérstaklega í ljósi ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar sem reiddist mjög yfir hljómfalli eigin orða í ræðu sem hann flutti um þetta mál og hneykslaðist mikið á öllum aðdraganda og undirbúningi. Ég verð að útskýra hvernig þetta horfir við okkur sem vorum meirihlutamegin í allsherjarnefnd sem samþykkti þetta mál í fyrra.

Þetta tiltekna mál kom upp, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, með tiltölulega skömmum fyrirvara og fékk ekki jafnlanga umfjöllun og málið allt. Ég get staðfest það sem hv. þingmaður segir hér og óskað honum til hamingju með það að hann varaði vissulega við þessari þróun, en hann hefur að mörgu leyti tekið sér það hlutverk í öllum málum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði um þetta efni.

Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um hljóðritun ríkisstjórnarfunda og geymslu á þeim hljóðritunum í 30 ár. Þannig að ef við gerðum ekkert og þessi lagabókstafur tæki gildi 1. nóvember þá yrðu á árinu 2042, ef mér skjöplast ekki í reikningnum, hljóðupptökur af ríkisstjórnarfundum hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur gerðar opinberar. Það mun ekki hafa mikla þýðingu fyrir stjórnmálaástandið árið 2042, á þeim tímapunkti. Það mun ekki raska neinu jafnvægi eða setja þjóðfélagið í slíkt uppnám að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því. Þær upplýsingar falla í þann flokk sem eru stundum umfjöllunarefni fjölmiðla, að vera fyrst og fremst forvitnilegar fyrir fólk. Það var á þeim grundvelli sem ég studdi þessa tillögu hv. þm. Þráins Bertelssonar, að það væri í sjálfu sér ekki mikið aðhald sem í því fælist heldur fyrst og fremst væri það forvitnilegt fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar og þá sem fjalla um pólitík og daglegt þjóðlíf á árinu 2042 að sjá hvað menn voru að ræða um í hæstv. ríkisstjórn í nóvembermánuði 2012.

Það er í sjálfu sér engin ástæða til þess að vera að æsa sig mikið yfir þessu. (VigH: Hví þá þetta frumvarp?) Það er enginn skaði skeður. Það var ákveðið af hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutanum að skoða málið betur. Að fresta gildistöku og fara vandlega yfir það og kanna hvaða annmarkar gætu verið á þessari framkvæmd. Nú hefur komið í ljós að þeir eru umtalsverðir. Þeir eru þannig að ekki verður við unað og þá er frekar en að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist beygt af leið. Það er ekki nema sjálfsagt. Til að við séum ekki að auka á leyndarhyggjuna, eins og svo oft er talað um í þessu samhengi og öðru, þá er hér bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að fundargerðir ríkisstjórnar skuli verða opinberar eftir átta ár. Það er líka búið að setja í lög um Stjórnarráðið að fundargerðir skuli vera ítarlegri en fyrir hrun og hingað til, þ.e. áður en við breyttum lögunum um Stjórnarráðið. Það er ákaflega jákvæður þáttur þessa máls.

Enn fremur vil ég geta þess að í þeim upplýsingalögum sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir í gær, en ég missti því miður af umræðum um það vegna annarra þingstarfa, eru umtalsverðar breytingar gerðar um opnun Stjórnarráðsins hvað varðar upplýsingar til almennings, ekki bara varðandi fundargerðir og önnur gögn ríkisstjórnar sem verða þá aðgengileg eftir átta ár í stað 30 ára eins og nú heldur er líka verið að auka upplýsingar til almennings og fjölmiðla hvað varðar launakjör opinberra starfsmanna, æðstu stjórnenda, og það er verið að breyta þeirri meginreglu sem verið hefur í upplýsingalögunum er varðar tilgreiningar þannig að þeir sem spyrja um upplýsingar, og hafa hingað til þurft að tilgreina sérstaklega hvað það er sem þeir eru að leita eftir, fá eftir þessar breytingar lista sem stjórnvaldi er gert að koma með yfir mál sem fyrirspyrjandi gæti verið að spyrja um.

Þvert á móti því sem hér hefur verið haldið fram er verið að opna mikið fyrir upplýsingagjöf og auka gagnsæi í ríkisrekstrinum. Það að menn séu núna að bakka með þetta eina litla ákvæði sem var sett inn í lögin um Stjórnarráðið er ekki til marks um að þeir séu að fara að loka bókunum ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti er verið að opna þær til mikilla muna frá því sem nú er. Þetta er þróun sem við eigum að vera ánægð með og skiptir miklu máli og kemur til með að hafa miklar breytingar í för með sér.

Ef menn sjá einhverja leið, án þess að ég hafi hana í kollinum, til að framkvæma þessar hljóðritanir þannig að ekki sé hætta á að þær verði misnotaðar í ófyrirsjáanlegri framtíð í pólitísku samhengi áður en þessi 30 ár verða liðin og ekki sé hægt að nálgast þessar upplýsingar eftir ákveðnum krókaleiðum þá held ég að ég mundi alveg á sama hátt og ég gerði á síðasta ári styðja þetta mál. Það hefur í sjálfu sér ekki í för með sér neina eðlisbreytingu á fundum ríkisstjórna.

Eins og hæstv. forseti veit þá hefur sá sem hér stendur staðið í því að útbúa minnisblöð fyrir ríkisstjórnarfundi. Ég þykist vita að ráðherrar mæti með tiltölulega vel útfærð minnisblöð á ríkisstjórnarfundi þar sem þau eru kynnt í ríkisstjórn án þess að miklar efnislegar umræður fari fram. Mér hefur sýnst, án þess að ég hafi átt sæti í ríkisstjórn, að ekki séu umfangsmiklar, dýnamískar umræður í sjálfri ríkisstjórninni um málin sem fjallað er um. Auðvitað er það örugglega misjafnt eftir málaflokkum og misjafnt eftir þeim tímum sem við berum niður og hvaða mál eru til umræðu í þjóðfélaginu. En ég held að áhyggjur hv. þingmanna séu óþarfar, sem tala hér um að þetta sé sjálf ríkisstjórnin og hún verði að geta starfað í friði og einhvers konar leynd. Ég held að það sé af og frá.

Við sem hér störfum höfum öll hlustað á ræður hæstvirtra ráðherra í umræðum í þinginu, í okkar eigin þingflokkum, þau okkar sem eru í þingflokkum, og ég er sannfærður um að þessir ágætu stjórnmálamenn eru ekki að spara bestu ræðurnar þangað til þeir koma á ríkisstjórnarfund og flytja þar eitthvað alveg sérstaklega gott efni sem hvergi heyrist annars staðar. Ég held satt best að segja, hæstv. forseti, að við gætum mörg hver farið með ræður hæstvirtra ráðherra í ræðustól á þinginu nánast orðrétt því að við höfum heyrt þær allar áður.

Þessi umræða hefur í sjálfu sér verið hin þokkalegasta og það hefur verið gaman að fylgjast með. Ég vildi nota tækifærið og lýsa skoðunum mínum á þessu máli og hvers vegna ég styð þá breytingu sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mælti hér fyrir fyrr í dag.