141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að standa í stælum við þann ágæta þingmann, hv. þm. Róbert Marshall, en allur ferill málsins sýnir að hér er ekki um að ræða að málið hafi verið hugsað til enda, það er auðvitað ekki þannig. Við værum ekki hér í þessum sal að ræða þetta mál í dag ef það hefði verið hugsað til enda, þannig að það sé sagt.

Hæstv. forseti. Af því að ég hygg að farið sé að styttast í þessari umræðu vil ég nota tækifærið til að segja að mér finnst eðlilegt að málið gangi til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hér kom fram tillaga fyrr í dag um að það færi til allsherjar- og menntamálanefndar, en ég vek athygli á því að sú breyting hefur átt sér stað á nefndaskipan Alþingis frá því að málið var upphaflega tekið fyrir í allsherjarnefnd að verkefni af þessu tagi falla í dag undir svið stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en það féll vissulega undir starf allsherjarnefndar á sínum tíma. Ég geri það því að tillögu minni að málið gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég tel hins vegar, svo það sé sagt við þessa umræðu, að málið hafi verið skoðað og rætt töluvert í nefndinni áður en það var lagt fram og get ímyndað mér að nefndin þurfi ekki að verja miklum tíma í það starf. En fyrst komin er fram tillaga um að málið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar finnst mér eðlilegt að það gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í staðinn vegna þeirrar verkaskiptingar sem við tókum upp á þinginu þegar nefndum var breytt á síðasta ári.