141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[14:36]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Í grunninn hefur stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, stjórnskipunarlög nr. 33/1944, reynst vel. Stjórnarskráin hefur að mínu mati dugað sem slík, vandamálin hafa fremur tengst miklu rými til að túlka ákvæði hennar og þeim mikla rétti sem sumir hafa tekið sér í þeim efnum. En stjórnarskráin okkar er barn síns tíma, hún er það svo sannarlega því að hún er að miklu leyti að stofni til stjórnarskráin sem Kristján IX. Danakonungur setti okkur Íslendingum einhliða 5. janúar 1874. Heilir kaflar þessarar stjórnarskrár eru í raun og veru þaðan.

Eins og kunnugt er völdu menn þá leið við lýðveldisstofnunina að gera með afbrigðilegum hætti einföldustu breytingar sem mögulegt var til að skipta út kóngi og setja inn forseta. Þá ákváðu menn samtímis að einhenda sér í kjölfar lýðveldisstofnunarinnar í það verk að semja Íslendingum nýja heildstæða stjórnarskrá. Vissulega hefur henni verið breytt, t.d. með mannréttindakaflanum á tíunda áratugnum og kjördæmaskipaninni var breytt — í andstöðu við suma sem menn komust að niðurstöðu um að ekki mættu hafa endalaust neitunarvald gagnvart því að stjórnarskrá væri breytt og ekki væru því tök á að gera breytingar í fullri sátt. En vonin um nýja íslenska stjórnarskrá eða heildstæða endurskoðun hennar hefur lifað óslitið frá lýðveldisstofnun og nær allan tímann hafa stjórnarskrárnefndir verið að störfum.

Fyrir mér eru því rökin fyrir því að ráðast loksins í að ljúka þessu verki núna þríþætt. Í fyrsta lagi þarf að ljúka þessu löngu fyrirhugaða verki sem áratugir hafa ekki dugað til að leiða í höfn, að Ísland eignist sína eigin heildstæðu stjórnarskrá og við þurfum ekki að byggja á arfinum sem við fengum einhliða frá Kristjáni IX. Danakonungi. Í öðru lagi er hverjum manni ljóst að það þarf að taka inn í stjórnarskrána margvísleg ný ákvæði vegna breyttra viðhorfa, vegna réttar- og samfélagsþróunar sem orðið hefur frá lýðveldisstofnuninni. Í þriðja lagi vegna nýrra viðfangsefna sem samtíminn og framtíðin færir okkur í hendur, t.d. á sviði umhverfismála. Loks er enn ein ástæða atburðirnir sem urðu hér á landi árið 2008 og sú víðtæka krafa sem í kjölfarið reis um umbætur á stjórnarskrá, stjórnskipunarlögum og öðrum lögum, stofnunum og stjórnsýslu.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt mikla áherslu á þetta mál og við lögðum í það mikla vinnu samhliða starfi stjórnarskrárnefndar á árunum fyrir 2007 að móta okkar áherslur að þessu leyti. Til að nefna þar nokkra hluti er það lýðræðið sjálft, þ.e. að stjórnarskráin sjálf festi í sessi það grundvallaratriði að valdið spretti frá þjóðinni, að það sé lýðurinn, með öðrum orðum almenningur, sem ráði og þaðan komi valdið. Persónulega gæti ég hjálpað til við að skrifa texta sem mér fyndist betri í þessum efnum en sá sem stjórnlagaráð leggur til en vissulega er þar margt mjög gott og einnig til bóta að þessu leyti.

Í öðru lagi höfum við sem grænn flokkur barist fyrir því að meginreglur umhverfisréttar kæmu inn í stjórnarskrá, þótt fyrr hefði verið, og að sjálfsögðu, jafngríðarlega mikilvæg og afdrifarík meginreglur umhverfisréttar eru í samtímanum og verða til framtíðar, leiðsögnin um sjálfbæra þróun og allt sem henni fylgir.

Í þriðja lagi nefni ég afdráttarlausari mannréttinda- og mannhelgisákvæði. Þótt margt sé gott í kaflanum frá tíunda áratugnum má þar gera betur, m.a. í samræmi við þróunina síðan þá í samræmi við þróun mannréttindaréttarins, samninga og sáttmála sem hafa komið til sögunnar á þeim tíma sem liðinn er.

Í fjórða lagi nefni ég beint lýðræði til að nefna nokkur stikkorð um það sem við leggjum mikla áherslu á.

Að sjálfsögðu leggjum við áherslu á að auðlindaákvæði tengt umhverfisákvæðum fari í stjórnarskrána þess efnis að auðlindirnar eigum við sameiginlega og gætum þeirra saman.

Kosningarnar á laugardaginn kemur eru afar mikilvægar. Ég kaus í gær. Það var gaman, það var auðvelt og mér fannst miklu sögulegra en ég átti von á að ganga inn í kjörklefa og kjósa í fyrsta skipti á ævinni beint um eitthvað sem tengdist sjálfri stjórnarskránni en ekki að nafninu til óbeint í tengslum við alþingiskosningar eins og það hefur verið og er enn, því miður.

Ég, öfugt við formann Sjálfstæðisflokksins, svaraði fyrstu spurningunni játandi vegna þess að ég tel tillögur stjórnlagaráðs að meginstofni til góðan grunn til að byggja á og átti ekki í neinum vandræðum með það. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé sammála öllum útfærslum þar og geti ekki hugsað mér vissa hluti öðruvísi. Þann rétt áskil ég mér að sjálfsögðu eins og væntanlega allir aðrir alþingismenn gera, til eða frá. Ég tel að það sem þar komi til skoðunar sé miklu léttvægara en hitt, sem er gott og góður efniviður og grunnur. Eins veit ég að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verður aldrei nákvæmlega eins og ég einn gæti hugsað mér að hafa hana, enda þyrftum við þá væntanlega 320 þús. stjórnarskrár en það stendur ekki til að hafa nema eina. Við verðum auðvitað að sýna sanngirni í þessum efnum.

Ég mun ekki senda út nein bréf, öfugt við formann Sjálfstæðisflokksins, með tilmælum um hvaða afstöðu þjóðin eða stuðningsmenn Vinstri grænna eigi að hafa á laugardaginn kemur vegna þess að nú er komið að þjóðinni sjálfri. Nú á þjóðin sjálf leik. Ég vara við þeim sem tala af léttúð um þennan rétt og þetta hlutverk þjóðarinnar. Alþingi hefur ákveðið að leita til þjóðarinnar um leiðsögn í þessu máli og það er mikilvægt að við umgöngumst það af virðingu. Vissulega mun skipta máli við mat á niðurstöðum hversu skýr skilaboðin verða, það liggur í hlutarins eðli, en það verður okkar að meta og vinna úr.

Forseti. Að síðustu þetta: Menn tala um mikilvægi þess að reynt sé að hafa sem breiðasta sátt um grundvallarleikreglur í stjórnarskránni. Að sjálfsögðu, það er rétt og mikilvægt. Það er gæfa ef stjórnmálaflokkunum sem slíkum tekst sæmilega upp í þeim efnum. Það hefur þeim ekki tekist. En það er langmikilvægast að þjóðin sé sátt því að þetta er stjórnarskráin hennar en ekki stjórnmálaflokkanna og enginn einn stjórnmálaflokkur á að hafa leyfi til þess að hafa endalaust neitunarvald eða synjunarvald gagnvart því að þjóðin fái sína stjórnarskrá. Satt best að segja hefur nú þegar gengið allt of langt það vald sem menn hafa tekið sér í þeim efnum að koma í veg fyrir að þjóðin fái umbætur á stjórnarskrá sinni.