141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Um hvað snýst þetta allt saman? Er þetta ekki allt of flókið? Hefur fólk eitthvert vit á því sem spurt er um? Verður farið eftir niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar?

Þannig spyr fólk gjarnan vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fer á laugardaginn, en þá verður fólk spurt um afstöðu sína til niðurstaðna stjórnlagaráðsins. Spurningarnar eru á mannamáli og auðskiljanlegar og það verða engin vandkvæði að túlka niðurstöður atkvæðagreiðslunnar. Já þýðir já og nei þýðir nei.

Þegar úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir og unnið hefur verið úr þeim verður lagt fram frumvarp á Alþingi. Ef svar þjóðarinnar við stóru spurningunni er nei er ljóst að samstaðan sem stjórnlagaráðið náði er fokin út í veður og vind. En vinnan sem unnin var er auðvitað ekki ónýt. Eftir sem áður verða svörin við hinum spurningunum, sem eru lykilspurningar, þinginu til leiðsagnar. Rétt er að vekja athygli á því að leiðarljós stjórnlagaráðsins var þjóðfundur sem haldinn var í nóvember 2010 en hann sátu 950 manns, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Þjóðfundurinn var því þverskurður þjóðarinnar.

Í niðurstöðum þjóðfundar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er sáttmáli sem tryggir fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og er skrifuð fyrir fólkið í landinu.“

Tillögur stjórnlagaráðsins endurspegla þetta, efni tillagna stjórnlagaráðsins er niðurstöður þjóðfundarins og ég mun því áfram dvelja við niðurstöður hans. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin skal byggja á siðferðisgildum. Siðgæðisþema nýrrar stjórnarskrár skal vera mannvirðing, tjáningarfrelsi og tillitssemi. […] Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins eru höfð að leiðarljósi.“

Hafa menn efnislegar athugasemdir við þetta?

Undir fyrirsögninni Mannréttindi segir, með leyfi forseta:

„Allir skulu njóta mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur lofað að virða, svo sem tjáningarfrelsis, friðhelgi einkalífs, trúfrelsis og eignarréttar. Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð. Allir skulu njóta jafns réttar til náms, heilbrigðisþjónustu og lágmarksframfærslu. Vægi atkvæða verði jafnt.“

Undir fyrirsögninni Réttlæti, velferð og jöfnuður, með leyfi forseta:

„Tryggja skal öllum landsmönnum mannsæmandi lífskjör óháð kyni, kynþætti, aldri, búsetu, vinnu, þjóðerni, trúarskoðun, efnahag, fötlun, kynhneigð eða skoðunum.“

Hafa menn efnislegar athugasemdir við þetta?

Náttúra Íslands, vernd og nýting, enn með leyfi forseta:

„Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign […] þannig að aðgengi almennings sé tryggt. Setja þarf skýr lög um eigna- og nýtingarrétt þjóðarinnar á auðlindum […] Náttúru Íslands og auðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir.“

Og um lýðræði, með leyfi forseta:

„Á Íslandi skal vera virkt og gagnsætt lýðræði. Vægi atkvæða verði jafnt í einu kjördæmi, kosningar með persónukjöri […] Lýðræðið byggi á þrískiptingu valds og skýrum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni. […] kjósendur með jafnan atkvæðisrétt geti einir breytt stjórnarskrá.“

Virðulegi forseti. Hér vék stjórnlagaráðið aðeins frá niðurstöðum þjóðfundarins og lagði til kosningakerfi þar sem atkvæðavægi er jafnt en þó þannig að hægt sé að hafa allt upp í átta kjördæmi og binda allt að 30 þingsæti í kjördæmunum. Það er ekki lagt til að landið verði eitt kjördæmi. Alþingi getur hins vegar gert það.

Valddreifing, ábyrgð og gegnsæi, hvað segir um þetta í niðurstöðum þjóðfundarins, með leyfi forseta?

„Tryggja þarf þrígreiningu valds þar sem hlutverk og ábyrgð ráðamanna séu skýr. Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku ásamt ráðherraembætti. Stjórnarskráin ætti að tryggja gagnsæi og eftirlit með stjórnsýslu. Fagmennska ráði för við ráðningar í störf í stjórnsýslunni. Endurskoða þarf vald forseta Íslands og taka afstöðu til neitunarvalds hans.“

Það var gert þó að því væri ekki breytt. Það var tekin afstaða.

Um frið og alþjóðasamvinnu segir, með leyfi forseta:

„Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki sem leggi áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir, sérstaklega á norðurslóðum. Ísland sé málsvari friðar og taki þátt í alþjóðasamstarfi í þeim tilgangi. Öryggi landsins skal tryggt.“

Virðulegi forseti. Þetta er úr niðurstöðum þjóðfundarins sem voru leiðarljós stjórnlagaráðsins og mér finnst undarlegt ef mikil andstaða er við þessar niðurstöður.

Hver hafa verið helstu gagnrýnisefnin? Eitt af því er um ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Menn segja að það sé óskýrt. Það er tekið úr lögunum sem sett voru um Þingvelli árið 1928 en þar segir, með leyfi forseta:

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“

Sami skilningur er á hugtakinu í frumvarpi dr. Gunnars Thoroddsens árið 1983, frumvarpi Davíðs Oddssonar frá 1995 og loks er talað um sameign þjóðarinnar í skýrslu auðlindanefndar árið 2000 undir forustu dr. Jóhannesar Nordals. Það eru ekki ómerkari menn en þetta sem hafa notað þetta hugtak.

Virðulegi forseti. Það læðist að manni sá grunur að eitthvað annað en orðalag og orðnotkun valdi því að sumir hv. alþingismenn fella sig ekki við þetta ákvæði í stjórnarskrá landsins. Það er enginn vafi á því að valdamikill en ekki fjölmennur hagsmunahópur hefur allt á hornum sér varðandi þetta ákvæði.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal stagast á því ákvæði að 5/6 alþingismanna geti breytt stjórnarskrá. Hann virðist ekki heyra það eða vita af því sem hefur verið sagt mjög oft að á fundi sínum 8.–11. mars samþykkti stjórnlagaráðið að falla frá þessu ákvæði. Þannig er nú gagnrýnin sem hefur verið sett fram á þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Þjóðaratkvæðagreiðslan er einn áfangi á langri leið til að setja okkur nýja stjórnarskrá. Hingað til hefur heildarskoðun á því grundvallarplaggi stjórnskipunarinnar og undirstöðu laga sem þjóðinni eru sett mistekist. Kannski er það að stjórnlagaráðinu tókst að ljúka verkinu einmitt einn vitnisburður um að aðrir en stjórnmálamenn og lögfræðingar eigi að koma að þessum málum.

Virðulegi forseti. Það var alltaf hugmynd landsfeðranna í upphafi lýðveldisins að þjóðin sjálf ætti að setja sér stjórnarskrá. Það er margítrekað í greinum og þingræðum. Nú er komið að þjóðinni að ljúka því verki sem var hafið árið 1942. Í máli þessa forustufólks íslensks lýðveldis kom skýrt fram að Ísland átti að verða lýðræðisríki sem viðurkenndi í öllum stjórnarfarslegum áherslum sínum að fólkið ætti að ráða. Nú er rétti tíminn að fullnusta verk feðra vorra og skila stjórnarskránni til þjóðarinnar.