141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þjóðaratkvæðagreiðsluna sem skal fara fram á laugardag, eftir tvo daga. Það er rétt að byrja á að segja það sem virðist hafa farið fram hjá mörgum, eða því er verið að breyta í umræðunni, að Framsóknarflokkurinn vill breyta stjórnarskránni. Framsóknarflokkurinn vill breyta þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem þarf að breyta. Framsóknarflokkurinn hefur aldrei talað fyrir því að hér yrði stjórnarskráin okkar sett í ruslið og ný skrifuð þannig að því sé til haga haldið. Umræðan hefur snúist upp á margar hliðar undanfarna mánuði, allt frá því að ég sjálf tók þátt í þjóðfundi á haustdögum 2010 og til dagsins í dag. Þetta hefur verið grýtt leið og hef ég gagnrýnt þennan feril mjög mikið vegna þess að ef við ætlum að reisa Alþingi til vegs og virðingar verða þingmenn sjálfir, og ekki síst ráðherrar, að fara að gildandi lögum, fara að stjórnarskrá.

Það er óþarft að minnast á það að nú þegar hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar gerst sekir um að brjóta lög. Ég tek sem dæmi hæstv. forsætisráðherra sem situr í þingsalnum, hún var dæmd fyrir að brjóta jafnréttislög. Ég segi, virðulegi forseti: Förum að þeim lögum sem eru í gildi, förum að þeirri stjórnarskrá sem er í gildi áður en við förum að skrifa ný lög eða nýja stjórnarskrá.

Það er það eina sem ég bið um.

Þeim spuna er mjög haldið hér á lofti að þingmenn verði að fara að þeim vilja sem birtist í atkvæðagreiðslunni nk. laugardag, að segi mikill meiri hluti landsmanna já við 1. spurningunni beri þingmönnunum 63 að fara að þeirri niðurstöðu. Ég verð því miður að hafna þessari fullyrðingu því að ég tek ekki þátt í því að brjóta núgildandi stjórnarskrá. Mér er það óheimilt. Sem þingmaður hef ég undirritað drengskaparheit samkvæmt stjórnarskránni um að ég fari að sannfæringu minni í störfum mínum en taki ekki við skipunum frá kjósendum, sér í lagi vegna þess að þetta er ráðgefandi skoðanakönnun, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þannig að það sé á hreinu. Ég kem aldrei til með að taka þátt í því að brjóta stjórnarskrána á meðan ég starfa sem þingmaður.

Allur sá útafakstur í þessu máli sem hefur átt sér stað sem kostar 1.300 milljónir þegar atkvæðagreiðslan um næstu helgi hefur farið fram leiðir það af sér að ef þjóðin hafnar þessu plaggi er þingið statt á byrjunarreit.

Sem þingmaður Framsóknarflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hef ég kallað eftir því frá upphafi að nefndin fengi málið til efnislegrar umræðu. Við þeirri beiðni hefur ekki verið orðið. Það var farið í gegnum þau drög sem komu frá stjórnlagaráði, ég er ekkert að fara yfir það að Hæstiréttur úrskurðaði stjórnlagaþingið ógilt en samt fór naumur meiri hluti Alþingis í þá vinnu að skipa sömu aðila í stjórnlagaráð þannig að stjórnlagaráð situr í umboði nokkurra meirihlutaþingmanna hér í þinginu, svo það sé bara sagt hér, en frá því að þessir aðilar skiluðu skýrslu til þingsins hefur ekki verið nokkur leið að fá hana efnislega rædda.

Það var farið í að kalla til sérfræðinga eftir kaflaskiptum skýrslunnar. Við nefndarmennirnir höfðum vissulega tækifæri til að spyrja þessa aðila út úr. Flestir þeirra höfðu miklar og veigamiklar athugasemdir við það plagg sem nú liggur fyrir, en það var aldrei nokkur einasta ákvörðun tekin um það hvar þær breytingartillögur sem þessir aðilar lögðu til ættu að koma inn í plaggið.

Svona stendur málið, því miður, því að þingið stendur núna á þeim tímamótum þegar hálft ár er fram að boðuðum kosningum — þær geta brostið á hvenær sem er — að tíminn er að fjara út. Stundaglasið er að tæmast.

Ég sé ekki í hendi mér að hér verði hægt að breyta stjórnarskránni það sem af er þessu þingi. Eftir næstu helgi, hver sem úrslitin verða — segi þjóðin já við tillögunum á efnislega umræðan eftir að fara fram hér í þinginu og komast að niðurstöðu því að þessi skýrsla er ekki endanleg, eins og nú er búið að viðurkenna. Fólk er ekki að greiða atkvæði um endanlegar tillögur. Því var lengi haldið fram og keyrt áfram af spunameisturum að það væri verið að ganga til kosninga og greiða atkvæði um endanlega tillögu stjórnlagaráðs.

Það er erfitt að kljást við það að koma sannleikanum á framfæri þegar allir spila með á þennan hátt. Nú hefur verið upplýst að svo er ekki. Meira að segja ráðsmaðurinn Þorvaldur Gylfason er nýbúinn að halda þessu fram í Kastljósi þannig að við sjáum alveg hvert er verið að fara með þetta. Það er verið að beita blekkingum.

Meira að segja eru tillögurnar ekki endanlegri en svo að nú þegar er starfandi lögfræðiteymi til að lesa yfir tillögurnar, samræma, laga til og gera orðalagsbreytingar. Það er ekki einu sinni tími til að bíða eftir því hvað þessir sérfræðingar segja. Þetta eru lögfræðingar og lögmenn sem hafa þekkingu á því að lesa þetta saman. Nei, nei, það tekur því ekki að bíða eftir því.

Það er enn ein sóunin, bæði á peningum og tíma þessara sérfræðinga, verði niðurstaðan sú að landsmenn hafni þessum tillögum á laugardag. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil, ábyrgð hæstv. forsætisráðherra er mikil á þessu máli. Þetta sýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og fyrst og fremst vilja til að eyða almannafé þegar jafnvel hefði verið hægt að nota það í eitthvað betra. Þá nefni ég til dæmis tækjakaup á Landspítalanum.

Kostnaðurinn nú þegar við þessar ímynduðu breytingar á stjórnarskránni er sambærilegur við það sem það kostar að endurnýja tækin á Landspítalanum sem eru á fjárhagsáætlun. Við skulum hafa það hugfast á sunnudaginn þegar búið verður að telja upp úr kössunum.

Ég er svo heppin að hafa farið til Noregs með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir nokkrum dögum. Þar fræddumst við um hvernig norska Stórþingið vinnur og hvernig þingmenn í Noregi vinna. Það var að sjálfsögðu spurt út í það hvernig Norðmenn breyta stjórnarskrá. Þeir sögðu: Við gerum það í miklum friði en ekki ófriði, stjórnarskrá verður ekki breytt nema það ríki nokkur sátt meðal landsmanna um að breyta henni.

Þeir eru nýbúnir að ganga í gegnum stjórnarskrárbreytinga. Hvað gerðu þeir? Fimm ára ferill fór af stað þar til stjórnarskránni var breytt, það þarf 2/3 þingmanna norska Stórþingsins til að breyta stjórnarskránni. Þar með er orðið tryggt að mikill meiri hluti bæði þingmanna og landsmanna stendur að þeim breytingum. Á þetta er ekki hlustað hér. Það er farið fram með stjórnarskrármálið í ófriði en ekki friði. Friður var í boði lengi vel, allir tilbúnir að setjast niður og vinna að því að finna þær greinar sem hægt var að breyta en sá friður var ekki í boði hjá ríkisstjórninni.

Það er sorglegt hvernig þetta mál hefur farið. Hér eru þingmenn að rugla saman bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Hér eru menn ekki alveg með á hreinu hvað er löggjafinn og hvað stjórnarskrárgjafinn. Löggjafinn er 63 þingmenn plús forseti, stjórnarskrárgjafinn er tvöfalt þing. Ég ætla að útskýra það hér áður en tími minn er úti, virðulegi forseti. Stjórnarskrá er þannig breytt að það er lagt fram frumvarp áður en þingi er slitið og þingmenn greiða atkvæði um það frumvarp fyrir þinglok. Þá eru komnir 63 þingmenn á því þingi. Síðan er boðað til kosninga og nýtt þing kemur til starfa. Segjum sem svo að það séu 30 þingmenn sem taka sæti, 30 nýir þingmenn á síðara þinginu og þá eru það 93 þingmenn auk forseta sem koma að því að breyta stjórnarskránni.

Þetta eru þingmenn ekki alveg með á hreinu. Þetta mál er keyrt á þann hátt að það sé bara hægt að fara með þetta út úr þessu þinghúsi og gera breytingar. Það er búið að tala um að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt að það væri Alþingi ofviða að breyta stjórnarskránni. Það er sorglegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra tala niður til þingsins með þessum hætti þótt sá þingmaður hafi bráðum 35 ára starfsreynslu hér. Hún ætti þá kannski að vita hvernig þetta er búið að vera hér undanfarin ár. Framsóknarflokkurinn treysti sér til þess að setjast niður og breyta þeim köflum eða greinum stjórnarskrárinnar sem þarf, en þetta gengur ekki svona. Þingið eitt getur breytt stjórnarskránni. Ríkisstjórnin verður að sætta sig við þá staðreynd, þess vegna bíð ég spennt eftir úrslitunum næsta sunnudag, hvort þessi 1.300 millj. kr. för hafi verið sneypuför.