141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Já, það er eitt og annað sem hægt er að ræða í tillögum stjórnlagaráðs, eitt og annað sem hægt er að taka undir og annað ekki. Það er eins og gengur.

Áður en ég ætla að fara út í það að ræða þjóðkirkjuna og það ákvæði þá vil ég örstutt segja við forseta að það er mjög kómískt að upplifa það að breyting á forsetaembættinu fékkst einfaldlega ekki rædd í stjórnarskrárnefndinni sem starfaði fram til 2007 vegna mótþróa Samfylkingarinnar. Og það er enn þá kómískt að við fáum þessar breytingar ekki enn ræddar í þessum merkilega þingsal. Við höfum bara eftirlátið forsetanum að ræða breytingar á forsetaembættinu ú þessum stól. Að mínu viti og þegar ég les tillögu stjórnlaganefndarinnar þá er verið að efla framkvæmdarvaldið með forsetann sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvaldsins. Það er verið að auka forsetaræði á kostnað löggjafarvaldsins. Ég er því ósammála að fara þessa leið og ég tel þetta ekki vera léttvægan grunn eins og hæstv. efnahags- og atvinnuvegaráðherra sagði áðan.

Hvað varðar þjóðkirkjuna þá er rétt að undirstrika að það er ekki alltaf sem ég hef verið sátt við þjóðkirkjuna. Ég ber mikla virðingu fyrir henni og það er líka rétt að geta þess að ég er ekki í þjóðkirkjunni. Spurningin sem blasir við landsmönnum næsta laugardag er að mínu viti óljós, hún er opin og hún vísar á engan hátt í tillögu stjórnlagaráðsins. Það eru misvísandi skilaboð, einmitt á kjörseðlinum sjálfum, hvað verður um þjóðkirkjuna sem slíka. Menn sem gerþekkja til þessara mála hafa bent á að það er óheimilt að finna út þá vernd sem þjóðkirkjan hefur í dag á grundvelli okkar stjórnarskrár án bindandi atkvæðagreiðslu og atkvæðagreiðslan á laugardaginn er ekki bindandi.

Stóra spurningin varðandi þjóðkirkju og stóra málið hvað hana varðar er hvaða þýðingu það hefur að afnema þjóðkirkjuákvæðið úr stjórnarskránni. Sú umræða er að mínu mati alveg eftir. Við eigum eftir að taka efnislega umræðu í þessu máli sem öðrum þáttum innan veggja Alþingis. Erum við hrædd við að viðurkenna að við erum kristið samfélag og höfum verið það allt frá árinu 1000? Erum við að hverfa frá grundvallaratriðum íslensks samfélags, sem byggir á kristnum gildum, þ.e. erum við að hverfa frá því að þau verði áfram grundvallaratriði í okkar samfélagi eða ekki? Sumir segja að svo sé, aðrir ekki. Það er mín einlæga skoðun að frjálslynt, umburðarlynt og lýðræðislegt samfélag sé hvergi sterkara en þar sem kristnin hefur leikið stórt hlutverk í samfélagsgerðinni. Þetta ákvæði allt þarf að skýra betur þó menn hafi síðan ákveðnar skoðanir á því hvað tengist aðskilnaði ríkis og kirkju í öðru samhengi.

Tillögurnar geta því að mínu viti falið í sér mjög stórar breytingar sem engan veginn sér fyrir endann á, aldeilis ekki. Og enn er allt á huldu um það hvernig niðurstöður kosningarinnar á laugardaginn verða túlkaðar. Miðað við það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur hegðað sér, meðal annars gagnvart dómum Hæstaréttar, þá er nokkuð ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir munu túlka niðurstöðuna eftir sínum pólitíska barómeter líki mönnum það betur eða verr. Sá barómeter er eins og við vitum alls ekki hagstæður fyrir almenning eða fyrir stjórnarskrána, hvort sem litið er til skemmri tíma eða lengri.