141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Það hlýtur að vekja mikla athygli í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður á laugardaginn að ekkert sé spurt um stjórnskipulega stöðu forseta Íslands. Er það ekki síst athyglisvert í ljósi þess að stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar hafa margsinnis haft athugasemdir við störf forseta til dæmis um ákvarðanir hans um að synja lögum staðfestingar samkvæmt 26. gr. núgildandi stjórnarskrár.

Þá eru tillögur stjórnlagaráðs er lúta að embætti forseta Íslands í stjórnskipuninni mjög óljósar. Hugmyndin virðist vera sú að efla Alþingi sem löggjafarvald en þegar tillögurnar eru lesnar gaumgæfilega kemur í ljós að embætti forseta Íslands er þvert á móti styrkt á margan hátt. Dæmi um það er að forsetinn virðist að vissu leyti vera settur með framkvæmdarvaldinu í tillögunum en heldur þó synjunarréttinum. Forseti skýrði afstöðu sína í málinu í ræðu sinni við þingsetningu í fyrra. Þar færði hann rök fyrir því að í reynd fælu þessar tillögur í sér eflingu á umsvifum forseta á vettvangi stjórnkerfisins og færðu embættinu aukin áhrif.

Forseti tók dæmi um hlutverk sitt við myndun ríkisstjórna þar sem forseti hefði í tillögunum miklu stærra hlutverk en nú er. Hann hélt því líka fram að tillögurnar mundu á ýmsan auka hátt bein tengsl forseta við Alþingi. Engin raunveruleg umræða hefur farið fram um þá túlkun forseta. Þó tjáðu ýmsir fulltrúar stjórnlagaráðs sig um að ekki hefði verið hugmyndin að efla embættið á þennan hátt og auka völd þess.

Alþingi hefur á þeim 14 mánuðum sem liðnir eru frá því að formaður stjórnlagaráðs skilaði inn tillögum ráðsins ekki tekið þá þætti til efnislegrar meðferðar frekar en aðra.

Í ljósi þess hversu miklu það skiptir að stjórnskipulegur grundvöllur lýðveldisins Íslands sé traustur er það skilyrði að þær tillögur sem lagðar eru fyrir þjóðina séu fullbúnar, vel ígrundaðar og skýrar. Afleiðingar þeirra og merking má aldrei vera með þeim hætti að hægt sé að túlka það á marga vegu. Þegar hafa komið fram ólíkar túlkanir forseta og þeirra sem unnu að tillögunum hvað varðar embættið og við verðum að leggja við hlustir þegar sá sem situr í embætti forseta Íslands túlkar tillögurnar á annan hátt en virðist hafa verið ætlun stjórnlagaráðs. Er þá komin fram svo mikil óvissa um skýrleika þessara ákvæða að á þeim er ekki hægt að byggja.

Færustu sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar hafa einnig lýst yfir miklum áhyggjum af þessum þætti málsins. Í því sambandi má nefna Skúla Magnússon og Ágúst Þór Árnason sem telja vafasamt að tillögur stjórnlagaráðs feli í sér eiginlega styrkingu Alþingis sem vettvang fyrir lýðræðislega umræðu og ákvarðanatöku í helstu málefnum þjóðarinnar. Þá nefna þeir að stjórnskipuleg staða þingsins sé mjög sterk í dag og taka jafnframt fram að þingið hafi í lagalegum skilningi allar nauðsynlegar heimildir til að styrkja stöðu sína sjálft.

Að mínum dómi eru tillögur stjórnlagaráðs innlegg í þá vinnu sem breytingar á stjórnarskrá eru en það stendur upp á Alþingi að taka þessar tillögur, ásamt öðrum tillögum og hugmyndum sem fram hafa komið um breytingar á stjórnarskránni, og vinna úr þeim heildartillögur sem hægt er að leggja fyrir þjóðina.

Ég veit ekki hvort allir geri sér grein fyrir því en í breytingunum er gert ráð fyrir að forseti Alþingis hafi forsetavald þegar forseti lýðveldisins getur ekki gegnt embættisfærslum sínum. Hefur einhver gert sér grein fyrir því ? Er þjóðin spurð um það á laugardaginn hvort hún vilji að forseti Alþingis sé eins konar varaforseti þjóðarinnar? Nei, það er ekki spurt um það. Tillögurnar, í þeim búningi sem þær eru, eru ekki tilbúnar til þess að leggja fyrir þjóðina á þessu stigi. Ég mun að sjálfsögðu fara á kjörstað á laugardaginn og nýta minn lýðræðislega rétt og ég mun segja nei.