141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[16:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í 5. spurningu sem við munum þurfa að svara á laugardaginn kemur er spurt hvort við viljum að í nýrri stjórnarskrá sé ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Þetta þýðir að færa á sex þingmenn sem nú eru í landsbyggðarkjördæmum til höfuðborgarsvæðisins.

Felur tillaga stjórnlagaráðs þetta í sér? Nei, það gerir hún ekki því að tillaga stjórnlagaráðs er sú að kerfið verði tvískipt, annars vegar verði þingmenn kosnir úr kjördæmunum, þar með kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu, og þeir verði 30, og síðan verði 33 kosnir af landslista. Þetta þýðir að í raun og veru kemur ekki jafnt vægi atkvæða út úr þessu. Það mun leiða til þess að einungis ellefu þingmenn af landsbyggðinni verða kosnir á grundvelli kjördæmaskipanarinnar sjálfrar. Það er veruleikinn sem við blasir.

Í raun leiða tillögur stjórnlagaráðsins ekki til þess sem við höfum kallað í daglegu tali jafnt vægi atkvæða, þvert á móti munu þær hafa í för með sér nýtt ójafnvægi, nýtt óréttlæti að þessu leyti af stærðargráðu sem við höfum ekki áður séð á lýðveldistímanum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höfnum tillögunni því hún snýst ekki um að jafna vægi atkvæða eins og margoft er kallað eftir, hún er ekki tillaga um að rétta hlut landsbyggðarinnar eða höfuðborgar. Hún er tillaga um ójafnræði, hún er tillaga um óréttlæti. Því eitt blasir við, eins og Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri hefur bent á, og bendir á í grein í Fréttablaðinu í gær. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar grundvallarspurning hvort íbúar ólíkra svæða eigi sér lögmæta hagsmuni sem gæta verði á Alþingi. Sumir telja að landskjörnir þingmenn geti einfaldlega hafið sig yfir hagsmuni einstakra kjördæma og unnið að hagsmunum landsins í heild. Oft eru hagsmunir þó einfaldlega svæðisbundnir og veruleg hætta á því að landskjörnir þingmenn taki ekki tillit til hagsmuna fámennra svæða ef þeir stangast á við hagsmuni fjölmennari svæða. Þannig væri þeim landskjörna þingmanni eflaust voðinn vís sem héldi fram sjónarmiðum sem væru verulega óvinsæl á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem beitt væri prófkjöri, persónukjöri eða uppstillingu sem höfðaði til meirihluta kjósenda.“

Með öðrum orðum, það fyrirkomulag sem liggur til grundvallar spurningunni og það fyrirkomulag sem stjórnlagaráð leggur til felur í sér að verið er að færa völd frá landsbyggðinni, ekki í samræmi við kröfuna sem stundum heyrist um jafnt vægi atkvæða heldur miklu meira, miklu verra.

Þetta er ekki bara niðurstaða mín, þetta er ekki bara niðurstaða sem Þóroddur Bjarnason hefur komist að. Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur hefur komist að sambærilegri niðurstöðu og tjáð þau viðhorf sín í fjölmiðlum. Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og við blasir. Þess vegna hika ég ekki við að segja þessa skoðun mína úr ræðustóli Alþingis. Ég er ekki eins og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem fer með sjónarmið sitt eins og um væri að ræða ríkisleyndarmál. Hann hefur greinilega ekki ætlað sér að taka afstöðu til þeirra ábendinga sem hafa komið fram um að í raun og veru feli tillögur stjórnlagaráðs ekki í sér hugmyndir um jafnt vægi atkvæða heldur sé með þeim búið til nýtt ójafnvægi, óréttlæti af stærðargráðu sem við höfum ekki séð fyrr á lýðveldistímanum. Það býður hættunni heim og eykur á sundrungu meðal þjóðarinnar.

Það er þetta sem er svo alvarlegt og þess vegna er nálgunin svo röng í þessu plaggi. Þess vegna er eðlilegt að við höfnum því að tillögur af þessu tagi verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Við eigum fremur að leggja til grundvallar núverandi stjórnarskrá okkar, gera á henni þær breytingar sem við teljum eðlilegar og um það getur örugglega tekist sátt á Alþingi og meðal þjóðarinnar.