141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[16:25]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að ítreka það og minna á í lok þessarar umræðu að löggjafarsamkundan hefur í meira en hálfa öld glímt við það að reyna að færa þjóðinni nýja heildstæða stjórnarskrá. Það hefur ekki tekist. Þinginu hefur ekki tekist að koma því í framkvæmd. Núna fyrst hefur tekist að setja saman heildstæða stjórnarskrá af fólkinu í landinu. Fólkið sjálft í landinu hefur stigið risavaxið skref í átt til þess að klára málið sem Alþingi hefur guggnað á.

Hér eru gerðar athugasemdir við það að málið fari óklárað í þjóðaratkvæðagreiðslu, fólk sé ekki að kjósa um endanlegar tillögur, engu sé hægt að breyta og fólkið fái ekki að greiða atkvæði um fullbúna stjórnarskrá. Ég hef sagt að nefnd sé að skoða tæknilega annmarka sem í ljós koma á tillögum stjórnlagaráðs, að hægt sé að breyta tillögunum standi til þess málefnaleg rök eða það sé í samræmi við niðurstöðu kosninga. Síðast en ekki síst getur Alþingi, ef það svo kýs, borið stjórnarskrána eins og Alþingi gengur frá henni á þessum vetri, þ.e. fullbúna stjórnarskrá, undir þjóðaratkvæði á ný samhliða næstu alþingiskosningum. Það kemur til dæmis til móts við áhyggjur hv. þm. Birgis Ármannssonar sem sagði að það væru of miklar skuldbindingar að segja já nú þar sem tillögurnar væru ekki endanlegar og líka við það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, að þetta væri ótímabær atkvæðagreiðsla.

Fólk sem segir já nú við því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar þeirri vinnu sem fram fer á Alþingi að loknum kosningum á laugardag getur átt þess kost, ef Alþingi ákveður það, að greiða aftur atkvæði um fullbúna stjórnarskrá með þeim breytingum sem málið mun hafa tekið í meðferð Alþingis samhliða næstu kosningum. Kjósendur þurfa ekki að óttast að annmarkar sem kunna að vera á tillögum stjórnlagaráðs og í ljós verða leiddir við þinglega meðferð málsins verði ekki lagfærðir. Að sjálfsögðu verður það gert og síðan hefur Alþingi vald til þess að endanleg stjórnarskrá fari þá aftur til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum. Kjósendur geta því að þessu leyti óhræddir sagt já við 1. spurningunni á kjörseðlinum nk. laugardag og það hvet ég fólk til þess að gera. Látum það bara ekki gerast að vinna þeirra þúsunda Íslendinga sem komið hafa að því að móta þær tillögur sem nú liggja fyrir verði fyrir bí. Lokaáfanginn er fram undan og áfangastaðurinn gefur fyrirheit um breytt og bætt lýðræði. En umfram allt hvet ég kjósendur, óháð því hvernig þeir hyggjast verja atkvæði sínu, til að mæta á kjörstað og nýta lýðræðislegan atkvæðisrétt sinn. Það er það sem skiptir máli.